Tolli Morthens listamaður og félagar hans sem reyndu að klífa tind fjallsins Aconcagua í dag varð ekki erindi sem erfiði vegna slæmra veðurskilyrða. Fjallið er það hæsta utan Asíu og það hæsta í Ameríku, rétt tæpir sjö þúsund metrar að hæð en það er í Argentínu, skammt frá landamærunum að Chile.
Talsmaður leiðangursins staðfesti við mbl.is að hætt hefði verið við atlöguna að tindi fjallsins.
Tolli, Arnar Hauksson og leiðsögumaður þeirra Sebastian Garcia lögðu af stað úr grunnbúðum fjallsins á föstudagsmorgun að staðartíma. Samkvæmt ferðaáætlun var stefnt á að vera á tindinum á sunnudag en það tókst ekki. Hópurinn var kominn úr grunnbúðum fjallsins, í um 4.300 metra hæð, í þær þriðju sem eru í 5.050 metra hæð er veður fór mjög versnandi.
Arnar og Sebastian gengu í búðir tvö, í 5.550 metra hæð, til að athuga ástandið en Tolli beið í þeim þriðju. Arnar og Sebastian ákváðu að snúa við og héldu þremenningarnir síðan aftur í grunnbúðirnar.

Ekki er útlit fyrir að tindinum verði náð á morgun en þeir ætla að gera aðra atlögu er veðrið batnar.
Tilgangur fjallgöngunnar er að vekja athygli á starfsemi Batahúss og safna áheitum en það er einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar þar sem einstaklingum stendur til boða heimilisaðstaða til allt að tveggja ára eða til skemmri tíma. Þeir Tolli og Arnar eru í stjórn Batahúss.
„Þetta verður fyrir mig, mikil bata og sáttar ganga, en við tileinkum gönguna Batahúsinu og þá er meiningin að safna pening með áheitum í Sollu-sjóðinn sem styður við starfsemi hússins“, sagði Tolli á Facebook fyrir skömmu. „Fyrir utan ýmsa eðlilega fyrirvara á svona fjallgöngu þá er óvissan gríðarleg með það hvert Covid faraldurinn fer með þetta. Falla flug niður, lokast landamæri eða veikjast menn í búðum á fjallinu og fleira í þeim dúr. Við eru staðráðnir í að leggja inn fyrir góðu ári.“

Sollusjóður var stofnaður af Bata góðgerðarfélagi og er hlutverk hans að styrkja skjólstæðinga Batahúss með fjárhagslegum hætti til þess meðal annars að sækja sér sérfræðiaðstoð hjá til að mynda sálfræðingum, fíknifræðingum og öðrum fagaðilum. Jafnframt styrkir Sollusjóður nám, námskeið, ýmiss konar fræðslu og tannlæknakostnað svo eitthvað sé nefnt.
Sollusjóður er sjálfstæður sjóður og eru stjórnarmenn þrír talsins sem taka ákvörðun um styrkveitingar. Frekari upplýsingar um félagið má finna á heimasíðunni www.batahus.is.
Óski styrkveitendur eftir frekari upplýsingum er hægt að senda fyrirspurn á bati@batahus.is.
Kennitala félagsins er 630921-1390.
Reikningsnúmerið er 0537-26-7487.