Í gær höfðu sextán einstaklingar sótt um breytingu á kynskráningu í Þjóðskrá, en opnað var fyrir hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá seinnipart þriðjudags. Af þeim sextán beiðnum sem borist höfðu í gærmorgun voru tólf þar sem einstaklingar óskuðu eftir skráningu kyns sem kynsegin/annað. Með opnun fyrir hlutlausri skráningu kyns hafa lög um kynrænt sjálfræði öðlast fullt gildi.

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78 segir lagabreytinguna skipta sköpum fyrir trans og kynsegin fólk. „Að sá hópur geti loksins breytt kynskráningu sinni sem samræmist þeirra kynvitund er á sama tíma mikið fagnaðarefni og einnig svo innilega sjálfsagt, því það hljóta að vera grunnmannréttindi að skráning okkar sé eftir okkar eigin höfði en ekki einhvers annars.“

Samtökin ´78 hafa síðan árið 2014 barist fyrir kynrænu sjálfræði ásamt Trans Ísland og Intersex og segist Daníel hafa fundið sterkt fyrir því að sú takmörkun sem fylgdi eldri lögunum hafi legið þungt á fólki. „Nafn og kynskráning er partur af sjálfsmynd einstaklings og að meina ákveðnum hluta fólks, eða gera þeim erfitt fyrir, að vera skráð eins og það vill hefur valdið þeim miklum ama, svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ segir hann.

Daníel segir það ekki koma sér á óvart að á einungis einum og hálfum sólarhring hafi strax sextán einstaklingar lagt fram beiðni um breytingu á kyni í þjóðskrá. „Við vitum af mörgum skjólstæðingum okkar og fólki innan Samtakanna sem hefur beðið eftir þessu lengi,“ segir hann.

Þá segir Daníel breytingarnar lið í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi og að þrátt fyrir mikla vinnu og langa fæðingu muni Samtökin halda ótrauð áfram í baráttunni. „Við fögnum þessum löngu nauðsynlegu breytingum og í raun óskum öllu kynsegin fólki innilega til hamingju með að geta skráð kyn sitt eins og það sjálft vill.“