Landsréttur þyngdi dóm yfir karlmanni um tvo mánuði en hann var sakfelldur fyrir stórfellt brot í nánu sambandi fyrir að hafa tekið fyrrum sambúðarkonu sína kyrkingartaki og þrengt að öndunarvegi hennar. Honum er gert að sæta fangelsi í alls tólf mánuði, en hafði verið dæmdur til tíu mánaða refsingar í héraðsdómi.

Segir í dómi að maðurinn hafi þrengt að öndunarvegi hennar með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund og hlaut ýmsa áverka, svo sem punktablæðingar aftan við báða eyrnasnepla og í innri slímhúð efri og neðri varar, blettóttan margúl í táru hægra auga, roða á báðum hliðum háls að framanverðu, slímhúðarskrámu á broddi tungu og brot á tveimur framtönnum.

Atvikið átti sér stað á heimili mannsins í desember árið 2017 en þau höfðu farið þangað saman til að ræða sambúðarslit sín þremur vikum áður. Þar sinnaðist þeim með þeim afleiðingum að maðurinn réðst á hana. Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að þeim hafi lent saman, en segist ekki hafa tekið hana kyrkingartaki. Læknisfræðileg gögn um áverka konunnar hafi þó sýnt fram á annað.

Karlmanninum var einnig gert að greiða konunni 900 þúsund í miskabætur.

Dómur Landsréttar er aðgengilegur hér.