Nýtt frum­varp um fæðingar- og for­eldra­or­lof var kynnt ríkis­stjórninni í morgun og sam­þykkt. Í til­kynningu á vef fé­lags- og barna­mála­ráð­herra segir að frum­varpið sem sam­þykkt hafi verið í morgun taki mið af þeim 253 um­sögnum sem bárust um málið í sam­ráðs­gátt stjórn­valda.

Nokkrar breytingar eru því á frum­varpinu frá því að það var fyrst kynnt þar. Helstu breytingarnar eru þær að frá og með 1. janúar árið á næsta ári verður fæðingar- og for­eldra­or­lof alls tólf mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ætt­leidd eða tekin í varan­legt fóstur. Sjálf­stæður réttur hvers for­eldris er jafn, sex mánuðir, en þó er þeim heimilt að fram­selja einn mánuð til hins for­eldrisins þannig að það verði fimm og sjö mánuðir.

Réttur til töku enn 24 mánuðir

Þá er réttur foreldra til töku fæðingarorlofs enn 24 mánuðir en nefnd sem skipuð var um málið lagið til að þeim yrði fækkað í 18 mánuði. Í svari félags- og barnamálaráðuneytis við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið segir að ráðherra hafi tekið tillit til athugasemda í samráðsgátt og haldið rétti foreldra í 24 mánuðum.

„Í ár eru tuttugu ár liðin frá gildis­töku laga um fæðingar- og for­eldra­or­lof, sem voru gríðar­lega fram­sækin á þeim tíma en það var kominn tími til að endur­skoða þau og færa til nú­tímans. Þetta frum­varp er stórt skref í þá átt og við viljum að Ís­land sé góður staður til þess að eignast og ala upp börn, og með þessu frum­varpi erum við að auka enn á réttindi for­eldra til sam­vista með börnunum sínum á fyrstu mánuðunum ævi þeirra,“ segir Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, í til­kynningu frá ráðu­neytinu.

Ásmundur Einar Daðason kynnti frumvarpið á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Frekari yfirfærsla réttinda á milli foreldra kynnt

Í til­kynningunni segir að lagðar séu fram frekari heimildir til yfir­færslu réttinda á milli for­eldra þegar annað for­eldri getur ekki af nánar til­greindum á­stæðum nýtt sinn rétt til fæðingar­or­lofs. Þær heimildir eru nú alls fjórar, en voru aðeins tvær þegar frumvarpið fór í samráðsgátt.

Þær fyrstu eru þegar ekki hefur reynst mögu­legt að feðra barn sam­kvæmt barna­lögum og þegar for­eldri er gert að sæta nálgunar­banni og eða brott­vísun af heimili sam­kvæmt lögum um nálgunar­bann og eða brott­vísun.

Það sem nýtt er í frumvarpinu núna er að bætt hefur verið við að yfirfærsla réttinda sé heimil þegar annað for­eldrið hefur ekki rétt til töku fæðingar­or­lofs eða fæðingar­styrks hér­lendis né heldur sjálf­stæðan rétt til töku or­lofs í sínu heima­ríki og þegar um­gengni annars for­eldris við barnið er engin eða hún veru­lega tak­mörkuð, svo sem undir eftir­liti ein­vörðungu, á grund­velli niður­stöðu lög­mælts stjórn­valds eða dóm­stóla.

Segir í tilkynningu að for­sjár­for­eldri þurfi að sækja um þessa til­færslu réttinda til Vinnu­mála­stofnunar sem tekur á­kvörðun í málinu.

Styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu

Þá er einnig lagt til að barns­hafandi for­eldri verði veittur sér­stakur styrkur vegna skerts að­gengis að fæðingar­þjónustu í þeim til­vikum þegar barns­hafandi for­eldri þarf að mati sér­fræði­læknis að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir á­ætlaðan fæðingar­dag, í tengslum við nauð­syn­lega þjónustu vegna fæðingar barnsins.

20 ár frá gildistöku laganna

Frum­varpið er lagt fram í til­efni þess að í ár eru tuttugu ár liðin frá gildis­töku laga um fæðingar og for­eldra­or­lof, en ráð­herra skipaði nefnd í ágúst 2019, sem hafði það hlut­verk að endur­skoða lögin í heild sinni. Segir í til­kynningu að alls sé gert ráð fyrir að 19,1 milljörðum króna verði varið í fæðingar­or­lof á árinu 2021 sem er tæp­lega tvö­földun á þeim fjár­munum sem fóru til mála­flokksins árið 2017, á verð­lagi hvors árs.

Félags- og barnamálaráðherra mun leggja frumvarpið fyrir þing núna þar sem umræður munu fara fram. Breytingarnar eiga að taka gildi um áramótin verði það samþykkt í þinginu.