Tólf manns greindust með veiruna innanlands í gær en af þeim sem greindust voru aðeins tveir utan sóttkvíar. Alls eru nú 120 í einangrun með virkt smit en þeim fjölgar um sjö milli daga. Þá eru 786 í sóttkví en þeim fjölgar um rúmlega 250 milli daga.

Tveir greindust með veiruna á landamærunum í gær en ekki liggur fyrir hvort um virkt smit sé að ræða. Sá sem greindist á landamærunum á mánudag reyndist vera með mótefni. Alls eru nú 949 í skimunarsóttkví en þeim fjölgar um rúmlega 120 milli daga.

Mikill fjöldi sýna var tekinn innanlands í gær eða rúmlega 3200 við einkennasýnatöku og sóttkvíar- og handahófsskimun. Þá voru rúmlega þúsund sýni tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu. Rúmlega 400 sýni voru tekin við landamæraskimun.

Þrír eru nú á spítala, þar af einn á gjörgæslu.

Fjölmargir hafa greinst með veiruna síðastliðna daga, til að mynda greindust 13 með veiruna síðasliðinn laugardag, 27 á sunnudag, og 21 á mánudag. Um er að ræða tvær hópsýkingar sem má rekja til sóttvarnarbrota á landamærunum. Mörg smit hafa komið upp meðal barna og eru nú 42 börn yngri en 18 ára í einangrun, þar af eitt yngra en eins árs.

Upplýsingafundur í dag

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis hafa boðað til upplýsingafundar í dag þar sem farið verður yfir stöðu COVID-19 faraldursins hér á landi.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir smitsjúkdómalæknir verður gestur fundarins og mun þar fara yfir skipulag og framkvæmd bólusetningar hér á landi. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir verða einnig á fundinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.