Náttúru­ham­fara­trygging Ís­land hefur komist að þeirri niður­stöðu að 39 hús hafi skemmst þegar aur­skriður féllu á Seyðis­firði síðast­liðinn desember en þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.

Af þeim húsum sem skemmdust eru 12 hús ónýt og fimm mikið skemmd, meira en 15 prósent af bruna­bóta­mati, en heildar­tjónið við skriðurnar er metið á um það bil milljarð.

Hættustig í gildi í rúman mánuð

Ríkis­lög­reglu­stjóri á­kvað í sam­ráði við lög­reglu­stjórann á Austur­landi að lækka al­manna­varna­stig á Seyðis­firði niður í ó­vissu­stig í gær en hættu­stig hafði þá verið í gildi frá 20. desember síðast­liðinn.

Síðustu vikur hefur farið fram hreinsun á þeim svæðum sem skriðurnar féllu 15. til 18. desember og sam­hliða því hefur verið unnið að gerð bráða­varna en ekki er talið að skriðu­hætta sé yfir­vofandi á þessum tíma.

Búið er að af­létta rýmingu á þeim húsum sem standa undir Múlanum en þau hús höfðu verið rýmd frá því að stóra skriðan féll þann 18. desember. Þó er enn rýming í gildi við Stöðvar­læk en búast má við niður­stöðum á næstu dögum.