Náttúruhamfaratrygging Ísland hefur komist að þeirri niðurstöðu að 39 hús hafi skemmst þegar aurskriður féllu á Seyðisfirði síðastliðinn desember en þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.
Af þeim húsum sem skemmdust eru 12 hús ónýt og fimm mikið skemmd, meira en 15 prósent af brunabótamati, en heildartjónið við skriðurnar er metið á um það bil milljarð.
Hættustig í gildi í rúman mánuð
Ríkislögreglustjóri ákvað í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi að lækka almannavarnastig á Seyðisfirði niður í óvissustig í gær en hættustig hafði þá verið í gildi frá 20. desember síðastliðinn.
Síðustu vikur hefur farið fram hreinsun á þeim svæðum sem skriðurnar féllu 15. til 18. desember og samhliða því hefur verið unnið að gerð bráðavarna en ekki er talið að skriðuhætta sé yfirvofandi á þessum tíma.
Búið er að aflétta rýmingu á þeim húsum sem standa undir Múlanum en þau hús höfðu verið rýmd frá því að stóra skriðan féll þann 18. desember. Þó er enn rýming í gildi við Stöðvarlæk en búast má við niðurstöðum á næstu dögum.