Tólf kærur hafa borist Alþingi vegna nýliðinna Alþingiskosninga. Alþingi hefur birt allar kærurnar ásamt þeim gögnum sem sem undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar hefur til rannsóknar.

Allar fimm kærurnar frá frambjóðendunum sem misstu sæti sín eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi hafa borist.

Sjö aðrar kærur hafa borist, meðal þeirra eru kærur Magnúsar Davíðs Norðdahls oddvita Pírata og Katrínar Oddsdóttur lögfræðings.

Katrín segir í kæru sinni að verulegar annmarkanir hafi verið á kosningunum og þær varði brot gegn rétti kjósenda til frjálsra kosninga. „Alþingi er verulegur vandi á höndum,“ segir hún.

Þá segir einnig að hún áskilji sér rétt til að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu ef ekki verður orðið við kröfu um ógildingu að hálfu Alþingis.

Katrín tjáði sig meðal annars um kosningarnar á Facebook-síðu sinni þar sem hún bendir á að fatlað fólk hafi ekki fengið leynilega atkvæðagreiðslu og vísar þar til máls Rúnars Björns Herrea Þorkelssonar sem einnig hefur sent kæru til Alþingis.

Rúnar Björn, formaður NPA miðstöðvarinnar, segir í kæru sinni að hann hafi upplifað talsverð óþægindi í tengslum við fyrirkomulag kosninga. Hann hafi ekki upplifað að hann væri að taka þátt í leynilegum kosningum.

Kjörklefi sem ætlaður var fötluðu fólki hafi ekki verið með tjaldi til þess að draga fyrir á meðan kosið var. Ókunnugt fólki hafi því vel getað séð hvað kærandi kaus.

Rúnar Björn bendir einnig á þær annmarkanir að Alþingi hyggist úrskurða sjálft um lögmæti kosninga, þrátt fyrir augljósa hagsmuni þingmanna af niðurstöðunni.

Undirbúnings kjörbréfanefnd fundar á opnum fundi í dag. Þar verða tveir gestir, Trausti Fannar Valsson ,forseti Lagadeildar Háskóla Íslands, og Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, að því er fram kemur á vef RÚV.

Kærufrestur til kjörbréfanefndar rennur út 29. október næstkomandi. Það er því mögulegt að fleiri kærur bætist við. Þá er ekki ljóst hvenær undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar lýkur störfum.