Tólf hafa stöðu sakbornings vegna rannsóknar á morðinu í Rauðagerði að sögn Margeirs Sveinssonar yfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sjö hinna grunuðu sitja í gæsluvarðhaldi, ein kona og sex karlmenn. Tveir eru í farbanni.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er albanskur karl­­maður, bú­­settur er hér á landi, grunaður um að hafa orðið Armando Beqirai að bana í Rauða­­gerði um þar síðustu helgi. Um­­­merki hafa fundist um að hleypt hafi verið af skot­vopni á heimili hans. Margeir vill hins vegar hvorki staðfesta né veita beinar upplýsingar um efnisatriði rannsóknarinnar.

Rannsóknin á byrjunarreit

„Miðað við þann tíma sem liðinn er núna þá er rannsóknin bara rétt að byrja,“ segir Margeir inntur eftir því hve langan tíma hann telji rannsóknina muni taka.

„Fyrstu dagana vorum við bara rétt að ná utan um þetta og reyna að átta okkur á umfanginu. Þannig að við erum þannig lagað séð á byrjunarreit, svona miðað við tímann." 

Þá segir Margeir að rætt hafi verið við fjölmörg vitni vegna málsins, auk þeirra sem grunaðir eru í málinu. Um sé að ræða einstaklinga sem afla þurfi almennra upplýsinga hjá, til dæmis fólks í nærliggjandi húsum við atburðinn, en einnig fólk sem tengist aðilum málsins með einum eða öðrum hætti.

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hefur fram­kvæmt hús­leitir á nærri tuttugu stöðum, á heimilum, í sumar­húsum og fleiri stöðum á Norður­landi, Suður­landi og á höfuð­borgar­svæðinu vegna rann­sóknarinnar. Um helgina fóru fram yfir­heyrslur og úr­vinnsla gagna í rann­sókn lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu á morðinu.

Rannsóknin snýr nú einnig að mögulegu peningaþvætti, fjársvikum og öðrum brotum.

Rannsóknum á líkinu lokið

Krufningu og réttarmeinarannsóknum á líki hins látna lokið. Aðspurður segist hann þó ekki hafa upplýsingar um óskir fjölskyldu hans um útför.

Eins og komið hefur fram aðstoðar Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra við rannsókn málsins. „Það er aðallega í formi fyrirspurna um þá sem tengjast málinu og eru grunaðir,“ segir Margeir. Meðal annars sé aflað upplýsinga um sakaferil manna. „Þetta gerum við yfirleitt rannsóknum ef um útlendinga er að ræða.

„Eins og gefur að skilja er það töluverð vinna þegar við erum með svona marga menn og af svona mörgum þjóðernum,“ segir Margeir.

Lítið sofið

Á þriðja tug lögreglumanna og starfsfólks ákærusviðs kemur að rannsókn málsins að sögn Margeirs. „Svo er hellingur af fólki sem kemur að málinu,“ segir Margeir og tekur starfsfólk tæknideildar sem dæmi.

Aðspurður um svefnvenjur og önnur heilræði Ölmu Möller landlæknis skellir Margeir upp úr. „Nei ég get alveg sagt að það er búið að vera lítið um svefn hjá okkur og fyrstu vikuna var bara nánast ekkert sofið,“ segir Margeir og bætir við:

„En það kemur að því, annað hvort gerist það bara sjálfkrafa að við dettum út af eða við gerum það sjálf.“

„Nei ég get alveg sagt að það er búið að vera lítið um svefn hjá okkur og fyrstu vikuna var bara nánast ekkert sofið.“

Maðurinn sem var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði aðfaranótt Valentínusardags hét Armando Beqirai. Hann var fæddur árið 1988. Hann var frá Albaníu en búsettur á Íslandi og lætur eftir sig íslenskaeiginkonu og eitt barn. Armando starfaði við öryggisgæslu og kom að rekstri fyrirtækisins Top Guard í félagi við nokkra aðra menn. Þeir önnuðust, meðal annars, dyravörslu á skemmtistöðum í Reykjavík.