Sædís Hrönn móðir tólf ára stúlku sem hefur orðið fyrir grófu einelti síðastliðið ár segist vonlaus og dofin vegna málsins í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Dóttir Sædísar liggur nú á spítala eftir sjálfsvígstilraun.

Sædís deildi myndböndum og skilaboðum í færslu á Facebook á dögunum sem dóttur hennar hefur borist frá samnemendum sínum.

Í skilaboðunum má sjá afar ljót orð falla og er hún meðal annars hvött til taka eigið líf.

Að sögn móðurinnar eru um þrjátíu börn viðloðin eineltið hvort sem þau taka beinan þátt eða horfa á.

Lítil aðstoð frá skólanum

Stúlkan varð fyrir grófri líkamlegri árás í Smáralind í ágúst síðastliðnum þegar tvær stúlkur réðust á hana þegar hún lá í jörðinni og spörkuðu í höfuð hennar og líkama..

Börn stóðu og tóku upp atburðarrásina þar til kona af veitingastað kom henni til aðstoðar.

„Ég vona að þú hafir nefbrotið hana,“ má meðal annars heyra sagt.

Aðspurð segir Sædís hafa fengið litla aðstoð frá skóla stúlkunnar en hún er í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Eina sem hafi staðið til væri að námsráðgjafi skólans og kennari myndu hitta hana vikulega í húsnæði skólans.

Að sögn Sædísar hefur dóttir hennar ekki treyst sér til þess þar sem gerendur eru í skólanum.

Glímir þú við sjálfs­víg­hugsanir ráð­leggjum við þér að ræða málin við sér­þjálfaða ráð­gjafa Rauða krossins í hjálpar­símanum, 1717, eða á net­spjalli Rauða krossins.

Einnig reka Píeta samtökin gjaldfrjálsa þjónustu fyrir fólk í sjálfsvígshættu, sem glímir við sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra.

Píetasíminn 552 2218 er opinn allan sólarhringinn. Í neyðartilvikum skal ávalt hringja í 112.