Benja­min Netanyahu mun víkja sem for­sætis­ráð­herra Ísrael eftir að ísraelska þingið, Knes­set, stað­festi nýja ríkis­stjórn í dag. Um var að ræða átta flokka stjórn þar sem stjórnar­and­stöðu­flokkurinn Yesh Atid og þjóð­ernis­flokkurinn Yamina munu skipta em­bætti for­sætis­ráð­herra á milli sín.

Ríkis­stjórnin var naum­lega sam­þykkt, þar sem 60 þing­menn greiddu at­kvæði með, 59 voru á móti, og einn sat hjá. Að því er kemur fram í frétt Times of Is­rael brutust fagnaðar­læti út þegar niður­stöðurnar voru til­kynntar. Nú mun hin nýja ríkis­stjórn taka við og verða ráð­herrar eiðis­s­varnir í dag.

For­seti þingsins, Yariv Le­ven, greindi frá því í síðustu viku að hann myndi boða til at­kvæða­greiðslu um hina nýju ríkis­stjórn sem Yair Lapid, leið­togi Yesh Atid, var falið að mynda. Sú at­kvæða­greiðsla fór að lokum fram í dag en síðasti mögu­legi dagurinn til að sam­þykkja nýja stjórn er á morgun.

Sammæltust um að koma Netanyahu frá

Stað­festing þingsins í dag bindur enda, alla vega tímabundið, á nokkurra ára ó­vissu í stjórn­málum í Ísrael en Ísraelar gengu til kosninga í fjórða sinn á tæpum tveimur árum síðast­liðinn mars, þar sem ekki hafði tekist að mynda starf­hæfa stjórn eftir fyrri kosningar. Netanyahu fékk fyrst stjórnar­myndunar­um­boð eftir kosningarnar í ár en tókst ekki að mynda stjórn.

Flokkarnir sem eru saman komnir í hinni nýju ríkis­stjórn eru víða á pólitíska rófinu en eiga það sam­eigin­legt að vilja að koma Netanyahu, sem hefur verið veru­lega um­deildur og á yfir höfði sér á­kærur fyrir spillingu, frá völdum. Hann hefur í­trekað reynt að sann­færa þing­menn um að hafna nýju ríkis­stjórninni og haldið því fram að stærsta kosninga­svindl lýð­ræðis­sögunnar hafi átt sér stað.

Naftali Bennett, leið­togi Yamina, mun nú vera for­sætis­ráð­herra fyrstu tvö árin á kjör­tíma­bili ríkis­stjórnarinnar og að tveimur árum liðnum mun Yair Lapid taka við. Aðrir flokkar í ríkis­stjórninni eru Blá­hvíta-banda­lagið, Yis­rael Beyt­enu, New Hope, Verka­manna­flokkurinn, Meretz og Araba­flokkurinn Ra’am.