Tólf ára gamall breskur drengur féll af svölum í íbúð fjöl­skyldu sinnar á Spáni í gær og lést sam­stundis. Fjöl­skyldan hans var í tveggja vikna fríi á Costa Del Sol í bænum Fu­engirola og ætlaði að fljúga heim í dag að því er fram kemur á vef BBC.

Í um­fjöllun breska miðilsins kemur fram að Lucas hafi verið í fríi á Spáni á­samt móður sinni auk vinar hans úr skólanum. Lög­reglan lítur svo á að um hafi verið að ræða slys og varð vinur hans vitni að því þegar drengurinn féll fram af svölunum. Móðir hans var inn í eld­húsi í­búðarinnar að elda há­degis­mat þegar slysið varð.

Drengurinn hét Lucas Briscoe og lýsa for­eldrar hans honum sem ein­stökum dreng en Lucas spilaði meðal annars rúg­bí og var hæfi­leika­ríkur söngvari. Ætlaði hann sér meðal annars að reyna fyrir sér í raun­veru­leika­þættinum Voice þessa helgi.

„Ég trúi því ekki að hann sé farinn. Hann var ver­öldin mín,“ segir móðir hans Nicola Mars­hall við breska miðilinn. „Takið utan um börnin ykkar og knúsið þau í dag og segið þeim hversu mikið þið elskið þau því þau eru ein­stök og þið vitið aldrei hvað morgun­dagurinn ber í skauti sér.“