Lyfja­stofnun hefur nú fengið tólf til­kynningar um and­lát í kjöl­far bólu­setningar gegn CO­VID-19 en tvö and­lát hafa bæst við í mánuðinum. Að sögn Rúnu Hauks­dóttur Hvann­berg, for­stjóra Lyfja­stofnunar, hafa öll and­látin komið í kjöl­far bólu­setningar með bólu­efni Pfizer, Comirnaty.

Það sem af er mars­mánuði hafa þrjár til­kynningar um al­var­legar auka­verkanir borist, þar af and­látin tvö vegna bólu­efnis Pfizer og ein til­kynning um bráða­of­næmi vegna bólu­efnis AstraZene­ca. Í heildina hafa 24 til­kynningar borist um al­var­legar auka­verkanir.

Enn er ó­ljóst hvort að and­látin í mánuðinum tengist bólu­setningu. Í öðru til­fellinu var um að ræða aldraðan og lang­veikan ein­stak­ling og í hinu til­fellinu var um að ræða fjöl­veikan ein­stak­ling. Báðir ein­staklingar höfðu ný­verið fengið seinni skammt sinn af bólu­efni Pfizer.

Bólusetning heldur áfram í vikunni

Alls hafa nú 12.710 manns lokið bólu­setningu gegn CO­VID-19 og hafa 16.607 ein­staklingar til við­bótar fengið sinn fyrsta skammta af bólu­efninu. Lang­flestir hafa verið bólu­settir með bólu­efni Pfizer þar sem rúm­lega 11 þúsund manns hafa lokið bólu­setningu og rúm­lega sjö þúsund fengið sinn fyrsta skammt.

Næst á eftir kemur bólu­efni AstraZene­ca þar sem rúm­lega átta þúsund ein­staklingar hafa fengið sinn fyrsta skammt en þrír mánuðir líða milli skammta af því bólu­efni. Að lokum hafa rúm­lega tólf hundruð manns lokið bólu­setningu með bólu­efni Moderna og rúm­lega fjór­tán hundruð fengið sinn fyrsta skammt.

Í vikunni er gert ráð fyrir að sjö þúsund ein­staklingar verði bólu­settir gegn CO­VID-19. Um 3.300 ein­staklingar í eldri aldurs­hópum fá þar sinn fyrsta skammt af bólu­efni Pfizer og um 3.700 fram­línu­starfs­menn munu fá sinn fyrsta skammt af bólu­efni AstraZene­ca.

Eins og staðan er í dag hafa 433 til­kynningar vegna gruns um auka­verkun í kjöl­far bólu­setningar gegn CO­VID-19 borist Lyfja­stofnun en af þeim til­kynningum eru 24 al­var­legar, 18 fyrir bólu­efni Pfizer, þrjár fyrir bólu­efni Moderna, og þrjár fyrir bólu­efni AstraZene­ca.