Héraðssaksóknari taldi ekki tilefni til að hefja rannsókn vegna áætlaðra brota Harðar Jóhannessonar, fyrrverandi aðstoðarlögregluþjóns, í tengslum við bréf sem hann veitti Jóni Baldvini Hannibalssyni um afskipti lögreglu af Aldísi Schram.

Persónuvernd úrskurðaði í lok ágúst að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði brotið persónuverndarlög við vinnslu persónuupplýsinga um Aldísi vegna bréfsins sem Hörður undirritaði.

Engin bókun til um málið

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að engin skjöl séu til í skjalakerfinu hjá lögreglunni um þetta bréf, sem Hörður skrifaði árið 2012 og sendi á Jón Baldvin. Engin bókun hefur fundist um málið en þetta var þegar Stefán Eiríksson, núverandi útvarpsstjóri, var lögreglustjóri.

„Þegar málið var afgreitt árið 2012, hefði í samræmi við lög og ferla embættisins, átt að vista umrædd bréfaskipti í málaskrá embættisins,“ segir í svari lögreglustjórans við fyrirspurn Kjarnans.

Lögreglustjórinn telur ekki tilefni til að bregðast frekar við broti Harðar Jóhannessonar vegna þess að umrætt atvik gerðist fyrir átta árum en þá liggur fyrir að ekki var heldur talið tilefni til að bregðast við broti Harðar árið 2012.

Bréfið sem Hörður Jóhannesson, þá aðstoðaryfirlögregluþjónn, veitti Jóni Baldvini Hannibalssyni.

Miðað við 2012 en ekki 2019

Aldís Schram kærði Hörð til héraðssaksóknara þann 12. febrúar 2019 eftir að Jón Baldvin birti bréfið í Morgunblaðinu og sýndi það í Silfrinu á RÚV.

Ástæðan fyrir því að héraðssaksóknari vísaði kærunni frá var að bréfið var dagsett 5. janúar 2012 og samkvæmt almennum hegningarlögum fyrnist sök á fimm árum. Miðað var við dagsetninguna þegar brotið var framið, þ.e. árið 2012 þegar Hörður skrifaði bréfið, en ekki við 7. febrúar 2019, þegar Jón Baldvin birti fyrsti bréfið í Morgunblaðinu og Aldís frétti fyrst um tilvist bréfsins og taldi tilefni til að kæra.

Almennt hefur upplifun þess sem telur brotið á sér meira vægi í einkamálum en í refsimálum og er það líklega ástæðan fyrir því að kærunni var vísað frá og ekki tekið tillit til dagsetningarinnar þegar bréfið var fyrst birt.