Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gagnrýndi ríkisstjórnina í dag vegna verðbólguástands í íslenskum efnahagi, sem hún tengdi við óhóflega útgjaldaþenslu ríkissjóðs. Í óundirbúnum fyrirspurnum til fjármálaráðherra sagði hún alla helstu umsagnaraðila hafa varað við væntanlegri aukningu verðbólgu en að ríkisstjórn hefði skellt við skollaeyrum.

„Ríkisstjórnin gaf nefnilega merkið og hún getur ekki litið fram hjá þeirri ábyrgð sinni,“ sagði Þorgerður. „Ég heyrði síðan fjármálaráðherra og stjórnarliða segja nú síðustu daga að fólk sé bara að misskilja þetta, misskilja eigið líf, misskilja launaumslagið, misskilja verðhækkanir á matarkörfunni, misskilja greiðsluna á húsnæðislánunum og svo eigi fólk bara að vera þolinmótt og almenningur megi alls ekki fara í að magna upp verðbólgudrauginn með því að eyða of miklu. Það er náttúrlega hjákátlegt að hlusta á þessa afneitun stjórnarliða síðustu daga.“

Þorgerður tengir verðbólguna fyrst og fremst við hallarekstur ríkissjóðs, sem hún segir að hafi farið fram úr hófi jafnvel áður en kórónuveirufaraldurinn hófst. „Ríkisstjórnin þenur út ríkissjóð stefnulaust, eiginlega stjórnlaust eins og við heyrum, og lætur í raun Seðlabankann einan um það, og heimilin í landinu, að takast á við verðbólguna.“

Í svari sínu við ræðu Þorgerðar sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hana leggja sér orð í munn. „Verðbólgan er áhyggjuefni og ég tek undir með háttvirtum þingmanni um það,“ sagði Bjarni. „Það er hins vegar mikill misskilningur að meginsökudólgurinn í því efni sé ríkissjóður, mikill misskilningur. Ég ætla að nefna eina staðreynd. Laun hafa á síðustu 12 mánuðum hækkað um 12,4% á Íslandi. Það er launavísitalan desember 2021 til desember 2022. Það eru ósjálfbærar launahækkanir.“

„Það er algerlega ljóst að m.a. ríkissjóður og sveitarfélögin sem þurfa að rísa undir slíkri launaþróun verða á útgjaldahlið sinni að hafa einhverjar forsendur á tekjuhliðinni,“ sagði Bjarni. „Það birtist m.a. í því að menn verða að hafa tekjur, til að mynda í gegnum gjöld. Það er algerlega fráleitt miðað við þann afkomubata sem hefur verið á ríkissjóði ár frá ári að við séum ekki að stíga í takt við Seðlabankann.“