Þór Bergsson, fyrrverandi dyravörður á Hverfisbarnum, þvertekur fyrir að hafa hent Sæborgu Ninju Urðardóttur út af staðnum vegna kynvitundar hennar og segir ástæðuna vera að hún uppfyllti ekki viðmið skemmtistaðarins um klæðaburð.

Þetta sagði Þór í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær þar sem fram fór aðalmeðferð í máli hans, en hann er ákærður fyrir brot á lögum um mismunun, með því að hafa neitað trans konu aðgang að skemmtistað.

Sæborg Ninja var stödd í afmælisveislu hjá systkini sínu, Rakel Glyttu Brandt, þetta örlagaríka kvöld, ásamt vinum háns. Hópurinn var einn á staðnum frá klukkan 21 og fékk Rakel Glytta fljótt að heyra það frá dyraverðinum að þau ættu að yfirgefa staðinn fyrir miðnætti.

Vitnum bar ekki nákvæmlega saman um ástæðuna, en sögðu hana hafa verið vegna fordóma dyravarðar gegn trans konu, Sæborgu Ninju, undir því yfirskini að hópurinn væri ekki „rétta týpan“ eða uppfyllti ekki ákveðna staðla.

Þór segist sjálfur hafa vísað þeim út vegna klæðnaðar og þau hafi skiljanlega orðið reið við það.

„Þegar ég var spurður út í þetta sagði ég að hópurinn væri með svona „MH-lúkk“ sem ég er ekki á móti, en það var ekki staðallinn á þessum stað,“ sagði Þór.

Sakamál gegn dyraverði skemmtistaðar var til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hann er ákærður fyrir að mismuna konu vegna kynvitundar hennar.
fréttablaðið/valli

„MH-lúkk“ og „gaur í kellingapels“

Aðspurður hvað hann ætti við með „MH-lúkki“ svaraði Þór að hann ætti við lopapeysur og ósamstæðan fatnað. Sem dæmi væri viðeigandi klæðnaður fyrir Hverfisbarinn jakkar, sparibuxur og lakkskór. Þá væri ekki leyfilegt að vera með höfuðfatnað.

Lykilvitni í málinu, Ída Finnbogadóttir, sagði dyravörðinn hafa rangkynjað Sæborgu þar sem hún stóð fyrir utan á reykingasvæði og neitað að hleypa henni aftur inn vegna kynvitundar hennar. Dyravörðurinn hafi sagt við hana: „Ég ætla ekki að hleypa þessum gaur í kerlingapels inn á staðinn“.

Tvö vitni sögðust hafa séð dyravörðinn benda á karlmann í jakkafötum og sagt að Sæborg yrði að klæða sig eins og maðurinn til að komast inn.

Ída hafi þá brugðið á það ráð að klæðast pelsinum hennar Sæborgar til að leggja áherslu á þessa mismunun, sem henni þótti augljós. Komst Ída inn á staðinn í kápu Sæborgar og mætti engum mótbárum.

Þór sagði hópinn hafa lagt sér orð í munn. Aðspurður hvers vegna Ída komst inn á staðinn í sama fatnaði, sagðist Þór ekki hafa hleypt henni inn, hún hafi einfaldlega strunsað inn fram hjá sér.

Þór sagðist ekki hafa neinar skoðanir á kynvitund fólks og neitaði því að hafa kallað Sæborgu karl í kerlingapels.

„Ég hef engar neikvæðar skoðanir á trans fólki eða samkynhneigðum eða neinum, allir verða að fá að vera fullkomin útgáfa af sjálfum sér,“ sagði hann, aðspurður um hvort hann hefði fordóma gegn trans fólki.

Yfirdyravörður tók undir með honum

Yfirdyravörður á staðnum á þessum tíma, Leó Freyr Halldórsson, segist hafa komið við á Hverfis­barnum snemma um kvöldið og tekið eftir hópnum þar sem hann sat í salnum. Leó segir Þór hafa leitað ráða hjá sér varðandi hópinn.

„Þór var að leitast eftir mínu áliti varðandi klæðaburð og ég var bara sammála hans mati að hópurinn væri ekki klæddur eftir reglum staðarins og bað hann bara um að taka ákvörðun varðandi það,“ sagði Leó.

Reglur um klæðaburð ekki skýrar

Bæði Leó og Þór tóku fram að reglur um klæðaburð gesta væru ekki skýrar frá atvinnuveitenda þeirra, en miðað var við snyrtilegan klæðnað eins og lakkskó, gallabuxur, sparibuxur, kjóla, pils og jakka.

Hvorki gestgjafinn né aðrir gestir í afmælisveislunni segjast hafa fengið upplýsingar fyrir fram um þessi viðmið um klæðaburð. Þegar þau hafi leitast eftir skýringum um viðeigandi klæðnað frá dyraverðinum, hafi þau fengið loðin svör. Eins hafi þau tekið eftir því, þegar aðrir gestir byrjuðu að tínast inn á staðinn, að klæðnaður annarra gesta væri ekki frábrugðinn þeirra. Þau hafi ekki verið hversdagslega klædd, þvert á móti í sparifötum. Sjálf var Sæborg í kjól, hælaskóm og í brúnum pels.

Nýr rekstraraðili tók við eftir atvikið.

Þorði ekki út úr húsi

Sæborg segir að þetta kvöld hafi einn hennar stærsti ótti við að vera meðal fólks orðið að veruleika. „Mér leið illa að þetta væri þungamiðjan í að afmæli systkinis míns hafi verið eyðilagt,“ sagði hún og tók fram að hún hefði ekki þorað að fara út úr húsi í langan tíma eftir þennan atburð.

„Ég vildi helst ekki vera séð. Mér leið mjög illa með sjálfa mig í langan tíma og ég hef ekki farið út á lífið á skemmtistaði nema á hinsegin staði eða sérstaka hinsegin viðburði,“ lýsti Sæborg í aðalmeðferðinni.

Annar dagur aðalmeðferðar í þessu máli fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember þar sem fleiri vitni verða leidd fyrir dómara.