Tekist var á um það á Alþingi í dag hvort notkun skattaskjóla myndi gera fyrirtækjum óheimilt að nýta sér stuðning stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, hóf umræðuna með því að beina fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

„Er ekki nauðsynlegt að hans mati að setja skýr skilyrði um að einstaklingar eða lögaðilar með skráð eignarhald í aflandsfélögum eða á lágskattasvæðum eða fyrirtæki í eigu aflandsfélaga eða félaga á lágskattasvæðum fái ekki aðstoð ríkisins með nokkru hætti?“

Telur skilyrðin vera skýr

Bjarni svaraði því að þær takmarkanir væru fyrir hendi.

„Slík skilyrði voru skrifuð vegna brúarlánanna inn í samning fjármálaráðuneytisins við Seðlabankann, að þeir sem hyggjast sækjast eftir brúarlánum skyldu hafa fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi.“

Sama skilyrði væri að finna í frumvarpi um stuðningslán sem nú væri til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Þar væri kæmi fram að full og ótakmörkuð skattskylda á Íslandi væri skilyrði fyrir því að slík lán yrðu veitt.

„Þetta tel ég vera alveg skýrt og taki þá til þess að þeir aðilar sem hafa skattskyldu í einhverju öðru landi falli ekki undir skilyrðin.“

Sakaði Bjarna um rangfærslur

Oddný féllst ekki á þetta svar fjármálaráðherra.

„Það er rangt hjá hæstvirtum ráðherra að það sé tryggt í frumvörpum ríkisstjórnarinnar að fyrirtæki í skattaskjólum fái ekki stuðning.“

Hún sagði að hvergi væru skilgreind skilyrði sem girði fyrir að fyrirtæki sem notfæri sér skattaskjól eða sé með eignarhald á lágskattasvæði fái stuðning frá ríkinu.

Fullyrti Oddný að sérfræðingar hafi bent á þetta og vísaði svo í frétt Stundarinnar frá því á þriðjudag þar sem haft var eftir Indriða H. Þorlákssyni, fyrrverandi ríkisskattstjóra, að þau skilyrði sem Bjarni vísar til myndu ekki girða fyrir slíkt.

„Þessi grein laganna og aðrar hafa að því er mér sýnist ekkert að gera með skattaskjól,“ sagði Indriði í samtali við Stundina.

„Ótakmörkuð skattskylda þýðir einfaldlega að viðkomandi sé skattskyldur hér á landi af öllum tekjum sem hann aflar sér hvar sem er í heiminum. Frumvarpið tekur á engan hátt á því hvort fyrirtæki notfæra sér skattaskjól eða eru með eignarhald í skattaskjóli.“

Sjálfsagt að skoða málið nánar í nefndarmeðferð

Í mótsvari sínu vísaði Bjarni aftur í umrædda grein um fulla og ótakmarkaða skattskyldu í Brúarlánasamningnum og lagafrumvarpi um stuðningslán.

Sagðist Bjarni telja að Oddný ætti við um fyrirtæki sem gætu haft tengsl við aðra aðila sem hugsanlega væru með skattskyldu sína annars staðar.

Þá sagði hann Alþingi hafa samþykkt reglur sem tækju á því og takmarkaði getu aðila til að notfæra sér lægri skattprósentu erlendis með þeim hætti.

„Það er aldeilis bara sjálfsagt að þetta sé skoðað nánar í nefndarvinnunni hér og það er bara rangt sem háttvirtur þingmaður er að reyna að fleyta hér út í „kosmósið“ að við höfum ekki hugað að þessu.“