Til snarpra orðaskipta kom í umræðum um söluna á Íslandsbanka í Silfrinu í dag. Allir gestirnir fundu þar sitthvað að framkvæmd sölunnar og eftirmálum hennar en ekki var um allt sátt um hver næstu skref ættu að vera eða hvort þau ummæli sem höfð hefðu verið um atburðarásina stæðust skoðun.

„Ef þetta væri skáldsaga væri ritstjórinn búinn að segja, tónum þetta aðeins niður,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrum þingmaður Borgarahreyfingarinnar, um söluna. „Ég var náttúrlega á þingi þegar við fórum yfir hrunið og fórum yfir lög um fjármálafyrirtæki. Það var sett inn ákvæði um hæfi þeirra sem fá að eiga banka. Mér finnst mjög sérstakt að það sé ekkert horft á það, og svo er spurning hvort það sé réttlætanlegt að handvelja þá sem verða í þessari stöðu.“

„Þetta er spilling,“ sagði Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International. „Það er ríkur vilji til að virða ekki ábyrgð, ríkur vilji til að hundsa viðvaranir og þegar það er algjörlega ljóst að þetta er ekki í samræmir við væntingar fólks er ríkur vilji til að fara ekki hina eðlilegu leið og hefja rannsókn. Það er ekki nokkur ástæða til að bíða eftir Ríkisendurskoðun. Það er líka þannig að framkvæmdavaldið heldur sig við það að öll yfirferð sé á þeirra forsendum.“

Viðskiptablaðamaðurinn Stefán Einar Stefánsson var ósammála því að strax yrði að skipa rannsóknarnefnd um söluna og sagði Ríkisendurskoðun og fjármálaeftirlit Seðlabankans því starfi vel vaxin að halda utan um úttekt á henni. Hann viðurkenndi að brotalamir hefðu verið í sölunni, sér í lagi að þátttakendum í sölunni hafi verið leyft að kaupa hlut í bankanum, en sagði þó að aðrir þættir hefðu heppnast vel og líta yrði heildstætt á ferlið.

Þá varaði hann við „gífuryrðum“ sem stæðust enga skoðun, meðal annars þá staðhæfingu Atla Þórs að Bankasýslan hefði sjálf varað við því að farið yrði útboðsleiðina sem tekin var við sölu bankans. „Þegar þessir aðilar hafa farið í saumana á málunum vitum við hvort tilefni er til að efna til formlegrar rannsóknar, eins og ég tel að flestir hafi sýnt vilja til að gera.“

Atla þótti lítið til þessara ummæla koma og sagði tvær heilbrigðisvottanir Ríkisendurskoðunar á fyrri einkavæðingu bankanna sýna fram á að stofnunina skorti verkfærin til að stýra raunverulegri rannsókn. „Það er alveg ótrúlegt með ykkur hægrimenn, þið eruð svo óvanir því að það sé eitthvað sagt gegn ykkur að þið farið alltaf í þennan pakka. Í hvert einasta skipti sem almenningur er óánægður hérna, þá eru það gífuryrði og menn verða aðeins að bíða og eitthvað. Þetta er mjög óvenjuleg aðferð. Það er ekki þannig að þeir sem gagnrýndu bankasöluna séu að leggja niður Bankasýsluna. Það er algjörlega fólkið sem bar ábyrgð á þessu sem tók þá ákvörðun á einhverjum rugl-fundi um páskana.“

„Gífuryrði,“ svaraði Stefán stutt og laggott.