Efling hefur fjóra daga til að skila greinagerð í máli ríkissáttasemjara gegn stéttarfélaginu. Efling vildi fá tveggja vikna frest en féllst á að skila greinargerðinni næstkomandi föstudagsmorgun. Munnlegur málflutningur fer fram síðar sama dag.
Í samtali við Fréttablaðið segist Sólveig ekkert vilja spá fyrir um það hvernig málið muni fara en bendir á að dómarinn hafi talað um það í dag að þetta hafi aldrei gerst áður.
„Ég hef aldrei farið í gegnum neitt þessu líkt áður og ég gat ekki betur heyrt en að dómarinn sagði að þetta hefði aldrei gerst áður, mál eins og þetta,“ segir hún.
Sólveig Anna segir nóg að gera hjá félaginu í dag. Hún eigi fund með olíubílstjórum í dag sem og samninganefnd félagsins og að í kvöld liggi fyrir niðurstaða í atkvæðagreiðslu þeirra um verkfall á Íslandshótelum.
Vildu tvær vikur
„Tvær vikur er mjög sanngjarnt,“ sagði lögmaður Eflingar, Daníel Isebarn, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en hann sagði það sanngjarnan frest til að grípa til varna. „Ég get ekki séð rök fyrir neinu öðru. Þó sóknaraðili vilji eitthvað annað.“
Dómari sagði að hann hefði gert ráð fyrir að flytja málið á fimmtudag: „Eftir þrjá daga?“ spurði þá lögmaður Eflingar.
Lögmaður ríkissáttasemjara, Andri Árnason, sagðist vilja ljúka málinu í þessari viku og benti á að Efling hefði fengið gögn málsins síðastliðinn föstudag. Þá sagðist hann vera erlendis í næstu viku og því ekki geta tekið málið fyrir þá.

Miðlunartilaga ríkissáttasemjara vegna deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna daga. Til þess að kjósa um tillöguna þarf á félagatalinu að halda, sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sagt að verði ekki gefið upp.
Því ákvað Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari að vísa málinu til héraðsdóms.
Sólveig Anna sagðist fyrr í sag ekki vita við hverju hún mætti búast við í fyrirtökunni, „En það sem ég veit er að Efling ætlar ekki að afhenda félagatalið. Það er okkar afstaða og við munum auðvitað grípa til varna í þessari fordæmalausu árás á lýðræði innan félagsins,“ sagði hún.
Spurð út í hvað gerist ef þau tapi málinu sagði Sólveig: „Það er góð spurning. Við skulum sjá hvað gerist. Það er alltaf erfitt þegar svona stórir atburðir eru í gangi, sem maður hefur sjálfur ekki upplifað áður og eru fordæmalausir, að spá fyrir um hvað gerist.“
