Tökur hafa gengið vel í dag á Húsa­vík á mynd­bandinu sem sýnt verður á Óskars­verð­launa­há­tíðinni á mánu­daginn eftir viku. Mynd­bandið er við lagið Husa­vik (My ho­met­own) úr kvik­myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga og er til­nefnt sem besta lagið úr kvik­mynd í ár.

Söng­konan Molly Sandén kom til landsins í gær og hefur verið í tökum í allan dag. Hún fékk þó stutta stund til að skoða sig um bæinn og hitta fólkið í bænum.

„Þetta er búið að vera of­boðs­lega gaman. Við erum búin að vera svo upp­tekin við tökur frá því að hún kom og svo var veðrið ekki með okkur í liði í gær. Það var beðið þar til fram­eftir til að reyna að ná þessu en svo var á­kveðið að taka annan töku­dag og taka tíma, yfir miðjan daginn, til að skoða sig um,“ segir Ör­lygur Hnefill Ör­lygs­son í sam­tali við Frétta­blaðið, en hann hefur komið að skipu­lagningu verk­efnisins frá upp­hafi.

Stelpurnar í stúlknakórnum kenndu Sandén Tiktok dansa og sungu fyrir hana lög.
Mynd/Örlygur Hnefill Örlygsson
Sandén skoðaði sig um.
Mynd/Örlygur Hnefill Örlygsson
Stelpurnar voru spenntar að tala við Sandén.
Mynd/Örlygur Hnefill Örlygsson

Ævintýri

Hann segir að stelpurnar í stúlkna­kórnum hafi verið mjög á­nægðar að fá að hitta Sandén þegar hún fór að skoða bæinn en þangað til höfðu þær að­eins verið með henni á sviði að syngja.

„Við plönuðum það þannig að hún gæti hitt þær og gættum auð­vitað að tveggja metra reglunni, eins og á að gera. Þær kenndu henni Tik tok dansa og lög og þetta var al­gert ævin­týri fyrir stelpurnar,“ segir Ör­lygur.

Hann segir að þau hafi farið í kirkjuna að því loknu til að skoða hana og hafi verið búin að biðja organ­istann um að spila Húsa­víkur­lagið.

„Við sögðum honum að þetta væri fyrir upp­töku og sögðum honum ekki að hún væri að koma og svo þegar hann var byrjaður að spila fengum við Molly til að koma inn í kirkjuna og þegar það var komið inn í mitt lag þá byrjaði hún að syngja og það hrein­lega datt af honum and­litið. Þetta var rosa­lega skemmti­leg stund,“ segir Ör­lygur og hlær.

Sandén kom organistanum á óvart með lagi
Mynd/Örlygur Hnefill Örlygsson

Hann segir að því loknu hafi þau farið með Sandén að hitta Óskar Óskars­son, leikara, en hann hefur verið and­lit her­ferðarinnar á Húsa­vík að fá Óskarinn heim.

Hann segir að veðrið hafi verið fínt í dag og átti von á því að tökum myndi ljúka í kvöld.

„Við erum spennt að sjá þetta til­búið,“ segir hann að lokum.

Molly Sandén með Óskari Óskarssyni leikara og andliti herferðarinnar.
Mynd/Örlygur Hnefill Örlygsson