Lögreglumenn hófu eftirför á sjötta tímanum í gærkvöld þegar ökumaður í Árbæ sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Var bifreiðin stöðvuð skömmu síðar þegar ökumaður og farþegi hlupu af vettvangi.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að ökumaðurinn hafi svo verið handtekinn stuttu seinna, meðal annars grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptan ökuréttindum. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Lögreglu var tilkynnt um innbrot í húsnæði í miðborginni á ellefta tímanum í gærkvöld. Tveir menn voru handteknir á vettvangi grunaðir um verknaðinn og voru vistaðir í fangageymslu lögreglu.

Klukkan 21 stöðvaði lögregla bifreið í Hlíðarhverfi þar sem 17 ára ökumaðurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi.

Þar að auki voru voru fimm bifreiðar stöðvaðar á höfuðborgarsvæðinu þar sem ökumenn voru ýmist grunaðir um akstur undir áhrifum eða sviptir ökuréttindum.