Tæp­lega tíu prósent Skaga­manna mættu í skimun hjá Ís­lenskri erfða­greiningu á Akra­nesi í dag. Sæ­var Freyr Þráins­son, bæjar­stjóri Akra­ness, sagði í sam­tali við RÚV ótta hafa gripið um sig í bænum þegar hóp­sýkingin kom upp.

Um vika er síðan sjö sam­starfs­menn greindust með Co­vid-19 á Akra­nesi og ekki leið á löngu þar til þrír ættingjar starfs­mannanna greindust einnig með veiruna. Upp­runi smitsins liggur enn ekki fyrir.

Fleiri mættu en voru boðaðir

Sæ­var sagði ótta bæjar­búa við far­aldurinn hafa verið mætt í dag þegar Ís­lensk erfða­greining stóð fyrir skimun. Mark­mið skimunarinnar er að komast að því hvort smitið hafi dreift sér frekar innan bæjarins.

Skimunin fór fram í hús­næði Rauða krossins á Akra­nesi og voru nærri fimm hundruð manns boðaðir í slembi­úr­tak. Svo mikill var á­hugi innan bæjarins að tölu­vert fleiri mættu í skimunina og var því á­kvörðun tekin um að taka sex hundruð sýni.

Kristín Eva Sveins­dóttir, um­sjónar­maður skimunar hjá Ís­lenskri erfða­greiningu, sagði daginn hafa gengið vonum framar og engin vanda­mál hafa komið upp. Búist er við því að niður­stöður skimunarinnar liggi fyrir á næsta sólar­hring.