Lög­regla hafði af­skipti af tveimur ein­stak­lingum um kvöld­matar­leytið í gær, en þeir eru grunaðir um brot á skyldum ein­stak­linga sem eru í sótt­kví.

Í skeyti frá lög­reglu kemur fram að tví­menningarnir hafi átt að vera í sótt­kví til 24. septem­ber næst­komandi. Þeir skráðu sig aftur á móti úr sótt­varnar­húsi og fóru í strætis­vagni að heimili sínu.

Að sögn lög­reglu voru hinir kærðu fluttir aftur í sótt­varnar­húsið.

Lög­regla hafði í mörg horn að líta í gær­kvöldi og í nótt. Rétt fyrir klukkan 18 hafði lög­regla af­skipti af manni á Hlemmi sem er grunaður um líkams­á­rás og brot á sótt­varnar­lögum. Hann er grunaður um að hafa hrækt í and­lit vagn­stjóra hjá Strætó.

Þá var til­kynnt um þjófnað á bif­reið í mið­borg Reykja­víkur um klukkan 23 í gær­kvöldi. Þar hafði maður skilið bif­reið sína eftir í gangi á meðan hann hljóp inn í hús til að sækja hlut. Þegar hann kom til baka var búið að aka bif­reiðinni að húsi hinum megin við götuna og stela lyklunum úr bif­reiðinni.