Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók skráningarmerki af 25 bifreiðum vegna vangoldinna trygginga eða vanrækslu á bifreiðaskoðun í gærkvöldi og nótt. Þar fyrir utan var brugðist við slagsmálum í miðborginni, grunsamlegum manni sem var á ferð í hverfi 108 og fjórir voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Rétt fyrir tvö í nótt var tilkynnt um slagsmál þriggja manna í miðborginni. Minniháttar áverkur hlutust af handalögmálunum, en einn var handtekinn, fluttur á stöðina og látinn laus eftir skýrslutöku.

Rétt eftir sjö í gærkvöldi var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 108, en þá var maður sagður ganga á milli bíla til að athuga hvort þeir væru læstir. Hann fannst ekki, þrátt fyrir nokkra leit.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, en þeir voru allir látnir lausnir að lokinni sýnatöku. Sá fyrsti var stöðvaður rétt rúmlega fimm í gær, annar var stöðvaður rétt fyrir sjö, en hann var líka að aka eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum, sá þriðji var stöðvaður rétt eftir sjö og sá fjórði var stöðvaður skömmu fyrir ellefu. Sá reyndi að ljúga til um hver hann væri og reyndist einnig hafa verið sviptur ökuréttindum.