Skráningar­merki voru tekin af fimm­tán bif­reiðum á höfuð­borgar­svæðinu í nótt þar sem þær höfðu ekki verið færðar í aðal­skoðun. Greint er frá þessu í dag­bók lög­reglu þar sem verk­efni gær­kvöldsins og næturinnar eru tíunduð.

Lög­regla hafði í nokkur horn að líta en á ellefta tímanum var til­kynnt um bruna­lykt í fjöl­býlis­húsi í mið­borg Reykja­víkur. Þar hafði pottur gleymst á elda­vél og sá slökkvi­lið um að reykræsta. Skömmu áður var til­kynnt um eld í heima­húsi í Hafnar­firði. Búið var að slökkva eldinn þegar lög­regla og slökkvi­lið komu á vett­vang.

Á tólfta tímanum var svo til­kynnt um ein­stak­ling sem var að reyna að komast inn í bif­reiðar í mið­borginni. Á meðan lög­regla var á leið á vett­vang var til­kynnt að við­komandi hefði komist inn í bif­reið og ekið á brott.

Að sögn lög­reglu fannst bif­reiðin skömmu síðar og var einn maður hand­tekinn og vistaður í fanga­klefa vegna rann­sóknar málsins.

Lög­regla var svo kölluð til um kvöld­matar­leytið vegna ofur­ölvi ung­lings í Mos­fells­bæ. Var málið af­greitt með að­komu for­eldra og barna­verndar.

Loks var til­kynnt um eld í bif­reið í Ár­bænum á þriðja tímanum í nótt. Eldurinn barst síðar í aðra bif­reið og sá slökkvi­liðið um að slökkva í bif­reiðunum. Frekari upp­lýsingar um málið koma ekki fram í skeyti lög­reglu.