„Við erum með fullt af hugmyndum sem við viljum koma í framkvæmd og byrjuðum á að gera spil,“ segir Sindri Leví Ingason, tvítugur nemi sem er nú að safna kaupendum að kortaspilinu Reckless Sloths sem hann bjó til ásamt kærustu sinni og jafnöldru Ameliju Priginaite frá Litháen. Þau koma frá Akranesi en eru nú í námi í Reykjavík. Hann er í arkitektúr og hún í hagfræði en þau ákváðu að taka sér pásu til að einbeita sér að spilinu.

„Eftir að við kynntumst var ég sífellt að segja henni að mig hefði lengi langað til að búa til spil. Hún var orðin svo þreytt á að heyra mig tala um þetta og sagði því að við yrðum að fara af stað því annars myndum við aldrei gera það,“ segir Sindri.

Spilið er fyrir tvo til fimm leikmenn á öllum aldri. Takmarkið er að bjarga letidýrum frá hættum, sem eru oft á tíðum afar undarlegar, og koma þeim á verndarsvæði. Sindri segir að stemningin og húmorinn í spilinu sé að einhverju leiti innblásinn frá hinu vinsæla Exploding Kittens, en gangverkið sé þó öðruvísi. „Við vorum ekki að líkja eftir neinu öðru,“ segir hann.

„Okkur finnst letidýr mjög krúttleg og maður myndi ekki búast við að þau væru að koma sér í svona hættur,“ segir Sindri aðspurður um hvers vegna þessi svefnsæknu suðuramerísku spendýr hafi orðið fyrir valinu. Hugmyndavinnan hafi þó tekið langan tíma og vinnan við að hanna hvert einasta kort.

„Mamma mín teiknaði myndirnar,“ segir Sindri en hann hafi þó þurft að læra á teikniforrit til þess að koma þeim á stafrænt form. Móðir hans, Sylvía Vinjarsdóttir, er listakona á Akranesi. Ýmsir aðrir hafa einnig komið að grafískri hönnun spilsins.

Sindri og Amelija hafa nú safnað rúmlega 26 þúsund dollurum á Kickstarter, eða vel á fjórðu milljón króna. „Við erum mjög bjartsýn og settum markið á milljón dollara til að byrja með,“ segir Sindri. En það myndi gera tæplega 140 milljónir króna. „Eftir aðeins meiri skoðun ákváðum við að setja markið á 100 þúsund dollara og það er ekki óheyrt að upphæðir hafi margfaldast á síðustu dögum eða klukkutímum söfnunar.“ En auk spilsins er einnig hægt að kaupa letidýrabangsa, boli og mottur.

Um helmingur þeirra sem þegar hafa keypt spilið eru Bandaríkjamenn. Þá koma Kanadamenn, Bretar og loks Íslendingar í fjórða sæti. Sindri og Amelija eru ekki að horfa til jólamarkaðarins enda tekur framleiðslan nokkurn tíma eftir að söfnuninni lýkur. Spilið verður framleitt í Kína og berst til kaupenda í vor.