Bólusetning fyrir mislingum gekk vel í dag á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en þetta kemur fram á vefsíðu heilsugæslunnar. Opið var í dag frá klukkan 12:00 - 15:00 og voru á hverri stöð á bilinu 30-90 börn bólusett og sumstaðar nokkrir fullorðnir að auki. 

Óskar Reykdalsson, settur forstjóri Heilsugæslunnar, segir í samtali við RÚV að hann telji að um þúsund manns hafi mætt á heilsugæslustöðvarnar í dag í bólusetningu en börn á aldrinum sex til átján mánaða og foreldrar þeirra voru í forgangi.

 „Við vorum með opið á nítján heilsugæslustöðvum í dag og það komu til okkar eitthvað í kringum þúsund manns. Þetta voru mest börn, eitthvað af óbólusettu eldra fólki, en fyrst og fremst börnin á aldrinum sex mánaða til átján mánaða.“

Enn er til bóluefni á öllum stöðvum og verður opið á morgun á sama tíma, frá klukkan 12:00-15:00 og verður nú líka boðið upp á bólusetningu fyrir fullorðna fædda 1970 og síðar. 

Heilsugæslan hvetur óbólusetta til að fjölmenna líka á morgun og minnir á að fólk á að geta mætt áhyggjulaust á heilsugæslustöðvar, en þeir sem hafa verið útsettir fyrir smiti eru búnir að fá þjónustu og eru ekki á heilsugæslustöðvum.