Jóhannes S. Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó segir vagnstjóra ekki hafa viljandi keyrt fram hjá fullum strætóskýlum á Menningarnótt heldur hafi oft verið barnavagnar í vögnunum og þeir því fullir.

Þetta segir Jóhannes í viðtali við Morgunblaðið í dag en mikil umræða hefur verið á samfélagsmiðlum eftir hátíðarhöldin um skipulagningu aksturs Strætó. Frítt var í hann á Menningarnótt og margir sem vildu nýta sér þjónustuna hafa greint frá því að hafa þurft að bíða lengi með börn sín eftir vagni.

Jóhannes segir í viðtali við Morgunblaðið að allt tiltækt lið hafi verið kallað út, aukavagnar sendir á leiðir þar sem álag var mikið en að álagið hafi verið meira á ákveðnum leiðum og því tekið tíma að kalla út aukavagn.

Hann segir að fleiri hefðu mátt nýta sér skutlþjónustuna frá Laugardal en sérstakur vagn ók frá Laugardalnum og að Hallgrímskirkju. Jóhannes segir að þar hafi verið töluvert enn af lausum bílastæðum sem fólk hefði getað nýtt sér.