Fáir hafa tekið jafn oft þátt í Reykjavíkurmaraþoninu eins og Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í dag hljóp hann sitt 31. hálfmaraþon, en hann hefur tekið þátt frá árinu 1987.

„Ég hef hlaupið hálfmaraþonið 31. sinni, en ég hjólaði árið 2012, þegar ég hélt að lappirnar á mér væru ónýtar,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Fréttablaðið. „Á undan því hljóp ég líka einu sinni sjö kílómetra.

Hreyfing er manninum nauðsynleg og ég er bara að reyna að hreyfa mig til að halda heilsu. Ég er með háþrýstingssjúkdóma, en með lyfjum og hlaupum er ég í fínu formi. Þegar maður er að hreyfa sig er gott að hafa tilgang og mér finnst ágætt að toppa með löngu hlaupi síðsumars. Svo fer ég líka í langa göngu næstu helgi. Ég finn það að útihreyfing er enn betri fyrir mig en hreyfing inni,“ segir Vilhjálmur. „Svo er þetta náttúrulega Íslandsmót og þó ég sé ekki að keppa til sigurs er gaman að vera með. Ég hleyp allan veturinn, stunda golf og geng á fjöll og mér finnst gott að hafa eitthvað til að stefna að.“

Vilhjálmur segist hafa klárað hlaupið og liðið vel eftir. Hann segist líka alltaf fá verðlaun og blaðamaður hitti á hann einmitt þegar hann var að undirbúa þau. „Ég er búinn að krydda kjötið og hita kartöflurnar, en að vísu er ég bara með 250 gramma steik núna, en það hefur oft áður verið 400 grömm,“ segir hann.

„Núna er ég að setja tómata og sveppi og papriku á grillið, þetta verður fín veisla. Það fær þetta enginn nema ég, ég er búinn að reka alla af heimilinu svo enginn öfundi mig,“ segir Vilhjálmur í léttum dúr.

Hann segir að Reykjavíkurmaraþonið hafi ekki breyst mikið í gegnum tíðina, leiðin sé svipuð og metnaður fólksins líka. „En það eru fleiri, sem betur fer, þetta er orðið alvöru almenningsíþrótt,“ segir hann.

Vilhjálmur segir að það sem hafi staðið upp úr í dag hafi verið að fá gott veður og fólkið sem var með honum. „Ég hljóp með mörgu fólki frá mörgum ólíkum löndum og spjallaði við þau. Það var gott að fá að æfa sig í þýskunni, en ég talaði ensku og þýsku til skiptis út og suður,“ segir hann. „Ég var mjög ánægður með stemmninguna. Allir voru mjög almennilegir og fólk tekur tillit til hvors annars. Allir eru að þessu sér til ánægju.“