Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, tók kærasta sinn með sér á fund Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Pence er alræmdur fyrir harða afstöðu sína gegn réttindum hinsegin fólks.

Varadkar og Pence hittust yfir dögurð á degi Sankti Patreks, en dagurinn er jafnan helsti hátíðardagur írsk-ættaðra Bandaríkjamanna. Morgunverðurinn fór fram á heimili Pence-hjónanna og var Matt Barrett, lífsförunautur írska forsætisráðherrans, með í för.

Hlýlegar móttökur

Varadkar birti færslu á Twitter-síðu sinni þar sem hann sagði að móttökur varaforsetahjónanna hafi veri hlýlegar. 

Í samtali við fjölmiðla eftir hinn hátíðlega morgunverð ræddi hann þó um jafnrétti og mismunun. „Ég bý í ríki þar sem ég hefði gerst brotlegur við lög ef ég hefði reynt að vera ég sjálfur á tilteknum tíma. Í dag er það breytt. Ég stend hér frammi fyrir ykkur, leiðtogi lands míns, breyskur og mannlegur, en dæmdur eftir pólitískum aðgerðum mínum en ekki kynhneigðar, litarhafts, kyns eða trúarskoðana,“ sagði Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, eftir morgunverð sinn með Mike Pence.

Öfgafullar skoðanir gegn hinsegin fólki

Pence er alræmdur fyrir íhaldssamar stjórnmálaskoðanir og þá sér í lagi gagnvart réttindum hinsegin fólks. Á Trump Bandaríkjaforseti að hafa gantast með hatur Pence á samkynhneigðum þegar forsetatvíeykið ræddi við lögspekinga um réttindi hinsegin fólks. „Ekki spyrja þennan,“ á forsetinn að hafa sagt og bent á Pence. „Hann vill hengja þá alla.“

Þá hefur Pence jafnframt stutt meðferðarúrræði sem eiga að „lækna“ hinsegin fólk, og að samþykkja í tíð sinni sem ríkisstjóri lagafrumvarp um trúarlegt frelsi sem heimilar fólki og fyrirtækjum að mismuna fólki eftir kynhneigð sinni. Karen Pence, eiginkona varaforsetans, hefur verið gagnrýnd fyrir að kenna í kristinni menntastofnun sem hefur þá stefnu að banna hinsegin starfsfólk og nemendur.