„Haraldur á að vera okkur öllum fyrirmynd. Þetta er ekki síst innblástur varðandi það hversu hratt hlutir geta gengið fyrir sig með samtakamætti og kannski smá brjálæði. Þarna kemur hann, grípur boltann og þrykkir öllu í gang.

Við erum í alvörunni í sjokki yfir því hversu hratt þetta hefur gengið fyrir sig. Það eru tvær vikur síðan við sóttum dóttur okkar í Reykjadal,“ segir Unnur Ösp Stefánsdóttir en á morgun verður fyrsti nýi rampurinn í Reykjadal vígður. Ramparnir í Reykjadal voru margir hverjir orðnir lúnir og þreyttir og því er þetta kærkomið

Hjartað fullt af þakklæti

Leikarahjónin Unnur Ösp og Björn Thors þekktu athafnamanninn Harald Þorleifsson ekki neitt fyrir. Þau sóttu dóttur sína Bryndísi í Reykjadal og keyrðu burt með tárin í augunum en hjartað fullt af þakklæti enda Reykjadalur einstakur staður.

Á heimleiðinni helltust tilfinningarnar yfir þau. „Þessi staður er uppfullur af slíkum mannauði og kærleika að maður á ekki orð af þakklæti en húsnæðið er byrjað að drabbast niður. Og merkilegt nokk eru aðgengismálin ekki í lagi. Við fórum að tala um þetta og í algjöru hvatvísiskasti settist ég niður við tölvuna og sendi á Harald. Ég þekkti hann ekki neitt. En ég segi honum söguna, hann svarar örskömmu síðar og spyr hvað þurfi að gera og hvernig.“

Unnur viðurkennir að hún hafi ekki alveg átt von á svona skjótum svörum.

„Ég hef alveg setið í stjórnum sem hafa fundað um safnanir svo mánuðum skiptir en þetta kennir manni að það er hægt að gera hlutina ansi hratt. Stjórnsýslan mætti alveg vinna á þessum hraða,“ segir hún.

Ætla taka Reykjadal í gegn

Unnur og aðrir foreldrar ætli ekki að láta staðar numið heldur gefa hreinlega í og taka Reykjadal í gegn enda margt komið til ára sinna innandyra. „Mér finnst þetta vera innblástur fyrir okkur sem samfélag og eins fyrir fólk með fjármagn á milli handanna sem getur látið hjartað tikka á réttum stað og láta gott af sér leiða. Okkur, ásamt fleiri foreldrum, langar að þetta verði okkur hvatning til að halda áfram, þetta er bara byrjunin. Við ætlum að starta átaki um að taka Reykjadal í gegn.

Við eigum dóttur sem kemst ekki í barnaafmæli í Ævintýralandi í Kringlunni eða Smáralind. Börn í hjólastól hafa ekki þau tækifæri. Auðvitað eigum við þá að búa til flottasta Ævintýralandið í Reykjadal, í sumarbúðum fatlaðra barna. Búa til herbergi með boltalaug, dýnum, litum og gleði. Þess vegna langar okkur til að hvetja fyrirtæki til að hoppa um borð í þessa lest okkar og hjálpa okkur að skapa fallegan ævintýraheim á þessum stórkostlega stað sem Reykjadalur er,“ segir Unnur.