„Þetta var ekkert alvarlegt en þetta var samt 100% brot á trausti. Sérstaklega fyrir mig sem blindan einstakling sem reiðir sig rosalega mikið á fólkið í mínu umhverfi.“

Þetta segir Már Gunnarsson, 20 ára gamall tónlistarmaður og sundkappi, sem lenti í þeim óförum að  myndband var tekið upp af honum í leyfisleysi og deilt á netinu.

Atvikið átti sér stað fyrir um mánuði síðan þegar Már var staddur í bílferð með fólki sem hann þekkti og taldi sig geta treyst.

Yfir 15 þúsund áhorf

Már hugsaði ekkert nánar út í bílferðina og hafði ekki verið í neinum samskiptum við þennan hóp fólks þegar hann frétti af tilvist myndbandsins um mánuði síðar.

Þá var búið að horfa á það hátt í 16 þúsund sinnum á samfélagsmiðlinum TikTok.

„Það sem gerist í þessu myndbandi er að einn aðili heyrist segja: „Ég myndi aldrei taka þig upp, syngdu núna fyrir okkur“ og svo söng ég bút úr einhverju lagi sem ég gaf út.“

Már frétti af myndbandinu þegar vinir hans tóku eftir því og létu hann vita af tilvist þess. Hann telur að það hafi verið sett inn um síðustu mánaðamót.

„Það varð bara allt vitlaust út af þessu.“

Í kjölfarið setti hann sig í samband við gerandann og bað hana um að taka myndbandið niður, sem hún gerði. Hún hefur að sögn Más ekki beðist afsökunar á gjörðum sínum.

Segir þau hafa notfært sér sjónleysi hans

Þó málið hefði getað verið alvarlegra þá olli það Má miklum hugarangri þar sem honum leið eins og fólkið hafi þarna notfært sér sjónleysi hans.

„Þegar ég sit í bíl og einhver beinir að mér síma og lofar að taka ekki upp, á meðan hún er að taka upp, og birtir svo á netinu þá er 100% verið að hæðast að mínu sjónleysi.“

Málið hafi verið erfitt í ljósi þess að hann hafi upplifað það að vera strítt út af sjóninni þegar hann var yngri.

„Ég hef verið í mötuneyti í grunnskóla og krakkar hafa hent einhverju rusli í matinn minn án þess að ég viti af því.“

Einnig séu mörg dæmi um að fólk hæðist að honum enn þann dag í dag.

„Meira að segja stundum lendi ég í því að fullorðnir einstaklingar koma upp að mér og breyta röddinni að gamni sínu til að sjá hvort ég geti giskað á hver þetta er.“

Vill koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig

Með því að ræða um þetta mál opinberlega segist Már vilja reyna að koma í veg fyrir að aðrir lendi í sömu aðstæðum.

„Ástæðan fyrir því að ég var að birta þetta á netinu og við erum að tala saman núna er að mér finnst að þau skilaboð eigi að komast út í samfélagið að þetta geti gerst en þetta sé ekki eitthvað sem er í lagi. Þetta á ekki að viðgangast, fólk á ekki að vera að taka upp einhvern einstakling í leyfisleysi hvort sem hann er blindur eða ekki.“

Már reynir þó að láta ekki atvikið á sig fá enda með nóg annað á sinni könnu. Már ber titilinn þriðji hraðasti blindi baksundmaður heims og gaf nýlega út ábreiðu með Ivu sem er hvað þekktust fyrir framlag sitt í Söngvakeppninni.

Hann segist ekki bera illan hug til gerandans og að lífið haldi áfram.

„Ef þetta eru einhverjir erfiðleikar hjá henni þá vona ég bara að það sé eitthvað sem hún muni komast yfir. Ég vona bara að henni muni ganga vel.“