Alls tók fjóra daga að brjótast í gegnum þykkt snjóstálið sem hafði safnast upp í vetur á veginum sem liggur inn í Mjóafjörð. Vegurinn, sem hafði verið meira og minna lokaður síðan í október, er nú ökufær á ný.
„Byrjað var að moka síðastliðinn föstudag. Haldið var áfram á mánudaginn og um miðjan dag í dag, miðvikudag, voru komin mjó göng með útskotum alla leið,“ segir Ari B. Guðmundsson yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Reyðarfirði, á vef Vegagerðarinnar.
Fjórtán íbúar að vetri til
Vegurinn lokaðist fyrst í október á síðasta ári. Hann var mokaður um miðjan þann mánuð fyrir Neyðarlínuna sem þurfti að flytja búnað til að leggja ljósleiðara í Mjóafirði. Mokað var á ný mánaðamótin nóvember, desember til að koma tækjabúnaði til baka. Leiðin var aðeins opin rétt nógu lengi til að samgönguráðherra næði að vígja ljósleiðarann og svo lokaðist vegurinn á ný og hefur verið lokaður síðan.
Í Mjóafirði hafa um fjórtán manns búsetu árið um kring og er allt til taks í Brekkuþorpi. Yfir vetrartímann er oftast ófært landleiðina og eina leiðin til og frá þorpinu er sjóleiðis. Þá siglir flóabáturinn Björgvin milli Brekkuþorps og Neskaupstaðar tvisvar í viku.

Ófært hálft árið
Snjórinn í ár var óvenju mikill og mun meiri en undanfarin ár að mati staðkunnugra. Unnið verður að því næstu daga að breikka göngin en fyrst um sinn er vegurinn aðeins fær jeppum. Á morgun ættu fjórhjóladrifnir bílar að komast leiðar sinnar en fólksbílar að öllum líkindum eftir helgi.
Tíðarfarið hefur mikið að segja um það hvenær Mjóafjarðarheiði er mokuð að mati Ara. „Ef snjórinn er lítill er stundum mokað einstaka sinnum yfir veturinn. Önnur ár er tíðin slæm og dæmi um að moka hafi þurft heiðina til að koma þangað fjárbílum að hausti.“
Hann viðurkennir að íbúana hafa verið farið að lengja til að komast landleiðina undir það síðasta. „Við erum kannski aðeins seinna á ferðinni miðað við undanfarin ár. Þar spilar inní bæði tíðarfarið og Covid-19.“
