Alls tók fjóra daga að brjótast í gegnum þykkt snjó­stálið sem hafði safnast upp í vetur á veginum sem liggur inn í Mjóa­fjörð. Vegurinn, sem hafði verið meira og minna lokaður síðan í októ­ber, er nú öku­fær á ný.

„Byrjað var að moka síðast­liðinn föstu­dag. Haldið var á­fram á mánu­daginn og um miðjan dag í dag, mið­viku­dag, voru komin mjó göng með út­skotum alla leið,“ segir Ari B. Guð­munds­son yfir­verk­stjóri á þjónustu­stöð Vega­gerðarinnar á Reyðar­firði, á vef Vega­gerðarinnar.

Fjór­tán í­búar að vetri til

Vegurinn lokaðist fyrst í októ­ber á síðasta ári. Hann var mokaður um miðjan þann mánuð fyrir Neyðar­línuna sem þurfti að flytja búnað til að leggja ljós­leiðara í Mjóa­firði. Mokað var á ný mánaða­mótin nóvember, desember til að koma tækja­búnaði til baka. Leiðin var að­eins opin rétt nógu lengi til að sam­göngu­ráð­herra næði að vígja ljós­leiðarann og svo lokaðist vegurinn á ný og hefur verið lokaður síðan.

Í Mjóa­firði hafa um fjór­tán manns bú­setu árið um kring og er allt til taks í Brekku­þorpi. Yfir vetrar­tímann er oftast ó­fært land­leiðina og eina leiðin til og frá þorpinu er sjó­leiðis. Þá siglir flóa­báturinn Björg­vin milli Brekku­þorps og Nes­kaup­staðar tvisvar í viku.

Aðeins sést glitta í toppinn á snjóblásaranum.
Mynd/Vegagerðin

Ó­fært hálft árið

Snjórinn í ár var ó­venju mikill og mun meiri en undan­farin ár að mati stað­kunnugra. Unnið verður að því næstu daga að breikka göngin en fyrst um sinn er vegurinn að­eins fær jeppum. Á morgun ættu fjór­hjóla­drifnir bílar að komast leiðar sinnar en fólks­bílar að öllum líkindum eftir helgi.

Tíðar­farið hefur mikið að segja um það hve­nær Mjóa­fjarðar­heiði er mokuð að mati Ara. „Ef snjórinn er lítill er stundum mokað ein­staka sinnum yfir veturinn. Önnur ár er tíðin slæm og dæmi um að moka hafi þurft heiðina til að koma þangað fjár­bílum að hausti.“

Hann viður­kennir að í­búana hafa verið farið að lengja til að komast land­leiðina undir það síðasta. „Við erum kannski að­eins seinna á ferðinni miðað við undan­farin ár. Þar spilar inní bæði tíðar­farið og Co­vid-19.“

Leiðin verður breikkuð á næstu dögum en enn er hún aðeins fær jeppum.
Mynd/Vegagerðin