Ásta Marý Stefánsdóttir segir í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins frá frumburði sínum, Stefáni Svan sem lést aðeins fjögurra mánaða gamall. Þar sem hún sat í kapellunni daginn fyrir jarðarförina tók hún ákvörðun.
Stefán Svan fæddist árið 2020 og kom í ljós fljótlega eftir fæðingu að hann var með Cornelia de Lange syndrome, sjaldgæft meðfætt heilkenni sem stökkbreyting á einu af mögulegum fimm genum veldur, stuttu eftir getnað.
Hann var aðeins átta merkur við fæðingu og þurfti aðstoð öndunarvélar. Fyrstu þrjár vikur lífs síns var hann á gjörgæslu Vökudeildar og undirgekkst eina aðgerð en þegar hann var laus við öndunarvélina fékk Ásta að fara með hann heim í Hvalfjarðarsveit þar sem hún býr ásamt foreldrum sínum. Þar lést hann í fangi móður sinnar, umvafinn ást fjölskyldu sinnar, aðeins fjögurra mánaða gamall.
Jóhanna Ólafsdóttir ljósmóðir á Akranesi varð áhrifavaldur í lífi Ástu en eftir að hafa heimsótt þau mæðgin daglega bauð hún henni að heimsækja Stefán Svan í kapelluna hvenær sem var fram að jarðarför.
Þegar þær svo sátu þar saman daginn fyrir jarðarförina, sagði hún við Ástu: „Þú veist að þú þarft ekki að eiga mann til að eignast barn.“ Ásta segist þá hafa tekið ákvörðun. „Ég fann að mig langaði í annað barn, ég vildi fá að vera mamma.“
Stefán lést í september 2020 og pantaði Ásta fljótlega tíma hjá Livio, sem býður upp á glasafrjóvgunarmeðferðir.
„Ég fer í fyrsta viðtal þar í desember,“ segir Ásta, en ári síðar fékk hún þær gleðifréttir að hún væri með barni.
„Sama dag fékk ég að vita að ég hefði komist í gegnum clausus í hjúkrunarfræðinni og fékk jákvætt þungunarpróf eftir fyrstu tæknisæðingu. Þetta voru bestu jólagjafirnar.“
Ásta hafði lengi haft áhuga á hjúkrunarfræði og reynsla hennar jók á hann, en eftir missinn tók hún eina önn í guðfræði og segir það hafa hjálpað sér mikið í sorginni.
„Ég hafði gott af því að velta fyrir mér allri þessari siðfræði og af hverju hlutirnir gerast, eða ekki. Um haustið fór ég svo beint í hjúkrunarfræðina og er nú á öðru ári,“ segir Ásta, sem er ákveðin í að ljúka jafnframt djáknanámi og geta þannig aðstoðað fólk í svipuðum sporum og hún var.
„Mig langar að gefa til baka það sem ég hef fengið.“
Valdi rauðhærðan gjafa
Seinni meðgangan gekk vel og var allt öðruvísi en sú fyrri.
„Ef ég hefði gengið með hann fyrst og svo Stefán, hefði ég kveikt á því að eitthvað væri að, að hreyfingar væru óeðlilega litlar,“ segir Ásta og horfir á sex mánaða soninn, Jón Ármann Svan, í fangi sér.
Hún viðurkennir að hún hafi verið hrædd á meðgöngunni, en erfðalæknir hafi sannfært hana um að engar líkur væru á að það sama gerðist aftur.
Ásta notaði Evrópska sæðisgjafabankann og valdi opinn gjafa, sem er rauðhærður og brúneygður. „Því mig langaði í sömu uppskrift og Stefán,“ segir hún einlæg.
Ásta valdi nöfnin Jón og Ármann eftir öfum sínum og eins fékk sonurinn nafnið Svan eins og stóri bróðir, en það er eftir systur Ástu og ömmu sem báðar heita Svandís. „Svo er hann Stefánsson eins og ég, en ófeðruð börn mega vera kennd við afa sinn. Ég hef aldrei hugsað eins mikið til Stefáns og eftir að Jón Ármann fæddist, um allt það sem hann náði að gera og náði ekki að gera. Hann gaf mér eiginleika sem ég vissi ekki að ég byggi yfir. Jón Ármann er svo dásamleg minning um stóra bróður sinn, Stefán Svan.“
Á meðan Stefán Svan var veikur fékk Ásta meðal annars fjárhagslega styrki úr nærsamfélaginu, sem hún er ótrúlega þakklát fyrir.
„Það er ekkert ódýrt að eignast barn með gjafasæði en peningarnir sem ég fékk fyrir hann Stefán minn, hafa svolítið farið í þetta, og fyrirhugaða húsbyggingu“ segir hún, en næst á dagskrá er að byggja hús fyrir litlu fjölskylduna í sveitinni.