Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Sunnudagur 26. febrúar 2023
16.00 GMT

Ásta Marý Stefáns­dóttir segir í við­tali við helgar­blað Frétta­blaðsins frá frum­burði sínum, Stefáni Svan sem lést að­eins fjögurra mánaða gamall. Þar sem hún sat í kapellunni daginn fyrir jarðar­förina tók hún á­kvörðun.

Stefán Svan fæddist árið 2020 og kom í ljós fljót­lega eftir fæðingu að hann var með Corneli­a de Lang­e syndrome, sjald­gæft með­fætt heil­kenni sem stökk­breyting á einu af mögu­legum fimm genum veldur, stuttu eftir getnað.

Hann var að­eins átta merkur við fæðingu og þurfti að­stoð öndunar­vélar. Fyrstu þrjár vikur lífs síns var hann á gjör­gæslu Vöku­deildar og undir­gekkst eina að­gerð en þegar hann var laus við öndunar­vélina fékk Ásta að fara með hann heim í Hval­fjarðar­sveit þar sem hún býr á­samt for­eldrum sínum. Þar lést hann í fangi móður sinnar, um­vafinn ást fjöl­skyldu sinnar, að­eins fjögurra mánaða gamall.

Jóhanna Ólafs­dóttir ljós­móðir á Akra­nesi varð á­hrifa­valdur í lífi Ástu en eftir að hafa heim­sótt þau mæðgin dag­lega bauð hún henni að heim­sækja Stefán Svan í kapelluna hve­nær sem var fram að jarðar­för.

Þegar þær svo sátu þar saman daginn fyrir jarðar­förina, sagði hún við Ástu: „Þú veist að þú þarft ekki að eiga mann til að eignast barn.“ Ásta segist þá hafa tekið á­kvörðun. „Ég fann að mig langaði í annað barn, ég vildi fá að vera mamma.“

Stefán lést í septem­ber 2020 og pantaði Ásta fljót­lega tíma hjá Livio, sem býður upp á glasa­frjóvgunar­með­ferðir.

„Ég fer í fyrsta við­tal þar í desember,“ segir Ásta, en ári síðar fékk hún þær gleði­fréttir að hún væri með barni.

„Sama dag fékk ég að vita að ég hefði komist í gegnum clausus í hjúkrunar­fræðinni og fékk já­kvætt þungunar­próf eftir fyrstu tækni­sæðingu. Þetta voru bestu jóla­gjafirnar.“

Ásta hafði lengi haft á­huga á hjúkrunar­fræði og reynsla hennar jók á hann, en eftir missinn tók hún eina önn í guð­fræði og segir það hafa hjálpað sér mikið í sorginni.

„Ég hafði gott af því að velta fyrir mér allri þessari sið­fræði og af hverju hlutirnir gerast, eða ekki. Um haustið fór ég svo beint í hjúkrunar­fræðina og er nú á öðru ári,“ segir Ásta, sem er á­kveðin í að ljúka jafn­framt djákna­námi og geta þannig að­stoðað fólk í svipuðum sporum og hún var.

„Mig langar að gefa til baka það sem ég hef fengið.“

Valdi rauð­hærðan gjafa

Seinni með­gangan gekk vel og var allt öðru­vísi en sú fyrri.

„Ef ég hefði gengið með hann fyrst og svo Stefán, hefði ég kveikt á því að eitt­hvað væri að, að hreyfingar væru ó­eðli­lega litlar,“ segir Ásta og horfir á sex mánaða soninn, Jón Ár­mann Svan, í fangi sér.

Hún viður­kennir að hún hafi verið hrædd á með­göngunni, en erfða­læknir hafi sann­fært hana um að engar líkur væru á að það sama gerðist aftur.

Ásta notaði Evrópska sæðis­gjafa­bankann og valdi opinn gjafa, sem er rauð­hærður og brúneygður. „Því mig langaði í sömu upp­skrift og Stefán,“ segir hún ein­læg.

Ásta valdi nöfnin Jón og Ár­mann eftir öfum sínum og eins fékk sonurinn nafnið Svan eins og stóri bróðir, en það er eftir systur Ástu og ömmu sem báðar heita Svan­dís. „Svo er hann Stefáns­son eins og ég, en ó­feðruð börn mega vera kennd við afa sinn. Ég hef aldrei hugsað eins mikið til Stefáns og eftir að Jón Ár­mann fæddist, um allt það sem hann náði að gera og náði ekki að gera. Hann gaf mér eigin­leika sem ég vissi ekki að ég byggi yfir. Jón Ár­mann er svo dá­sam­leg minning um stóra bróður sinn, Stefán Svan.“

Á meðan Stefán Svan var veikur fékk Ásta meðal annars fjár­hags­lega styrki úr nær­sam­fé­laginu, sem hún er ó­trú­lega þakk­lát fyrir.

„Það er ekkert ó­dýrt að eignast barn með gjafa­sæði en peningarnir sem ég fékk fyrir hann Stefán minn, hafa svo­lítið farið í þetta, og fyrir­hugaða hús­byggingu“ segir hún, en næst á dag­skrá er að byggja hús fyrir litlu fjöl­skylduna í sveitinni.

Athugasemdir