Togarinn Drangur ÁR-307 liggur nú sokkinn á botni hafnarinnar í Stöðvar­firði. Sjó­menn tóku eftir því um klukkan sjö í morgun að togarinn hallaði í­skyggi­lega við höfnina og skömmu síðar var hann sokkinn. Fjöl­mennar að­gerðir slökkvi­liðs og björgunar­sveita standa nú yfir til að reyna að koma í veg fyrir mikla mengun frá skipinu.

Guð­mundur Helgi Sig­fús­son, slökkvi­liðs­stjóri í Fjarða­byggð, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að verið sé að skoða hvort hægt sé að dæla olíu upp úr höfninni. Hann veit þó ekki hversu mikil olía hefur lekið út togaranum.

Enginn veit hvað gerðist við togarann í morgun.
Mynd/Björgvin Valur Guðmundsson

Líklega mannlaus

Enginn veit hvað kom fyrir togarann og varð til þess að hann sökk. Guð­mundur segir talið að hann sé mann­laus.

Drangur kemur frá Stokks­eyri en hann hefur verið á sæ­bjúgna­veiðum við austur­strönd landsins undan­farið. Á­höfn togarans var í helgar­fríi í Stöðvar­firði og hefur togarinn því ekki verið í notkun í fá­eina daga.

Hann stendur nú með skutinn sokkinn í botn hafnarinnar en stefnið flýtur upp úr. Að sögn Guð­mundar er nokkuð mikill mann­skapur á svæðinu að reyna að koma í veg fyrir að mikil mengun berist út í höfnina, bæði frá slökkvi­liðinu á Breið­dals­vík og Fá­skrúðs­firði en einnig björgunar­sveitar­menn frá Björgunar­sveitinni á Breið­dals­vík.

„Við erum að skoða það að setja upp mengunar­varnar­girðingu og hvort það sé hægt að dæla upp olíu,“ segir Guðmundur. Sjálfur er hann nú á leiðinni til Stöðvar­fjarðar vegna málsins.

Sjó­mönnum á Stöðvar­firði brá nokkuð í morgun þegar þeir komu að sökkvandi togaranum.
Mynd/Björgvin Valur Guðmundsson