Togarinn Heinaste, sem er í eigu Esju Holding, dótturfélags Samherja, og namibísk yfirvöld kyrrsettu 22. nóvember síðastliðinn hefur verið gerður upptækur. Þetta kemur fram í frétt á The Namibian. Í fréttinni segir að talsmaður namibísku lögreglunnar hafi staðfest þetta við miðilinn í síðustu viku.

Heinaste var stöðvaður þar sem hann var talinn vera við veiðar á bannsvæði. Íslenskur skipstjóri þess, Arngrímur Brynjólfsson, var handtekinn vegna málsins og leiddur fyrir dómara. Hann var látinn laus úr haldi gegn tryggingu. Samkvæmt fréttinni er rannsókn málsins enn í gangi.

Í fréttinni segir að skipið sé í dag óskráð og án ríkisfangs. Það hafi siglt undir namibísku flaggi og hafi veitt fyrir Fishcor, sjávarútvegsfyrirtæki í eigu namibíska ríkisins, áður en það hóf veiðar fyrir Samherja.

Uppfært klukkan 20:17:

Samherji hefur sent frá sér tilkynningu þar sem þessari frétt er hafnað. Togarinn hafi verið kyrrsettur þann 29. nóvember ekki 22. Þá sé kyrrsetningin ótengd öðrum ásökunum á hendur félaginu vegna starfsemi í Namibíu. Þá segir félagið að skipið sé ekki óskráð heldur skráð í Belize, til að liðka fyrir sölu þess þar sem skipið sé í söluferli.