Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar sem talið er að hafi fallið í Sýrlandi í fyrra, greinir frá því á vefsíðu sinniað fyrir tilstilli Ögmundar Jónassonar sé fartölva Hauks nú á leiðinni til landsins.

Eva hefur barist fyrir því að fá upplýsingar um afdrif Hauks, en Tyrkir hafa sagt að hann sé fallinn. Eva segir að Ögmundur, sem er fyrrverandi Alþingismaður, hafi strax sett sig í samband við hana og boðið fram aðstoð sína.

Eva skrifar: „Ég hef alveg látið hann Ögmund heyra það í gegnum tíðina þegar ég hef verið óánægð með hann en hann lét það greinilega ekki hafa nein áhrif á sig. Hann kom á beinu sambandi milli fjölskyldunnar og talsmanns Kúrda hjá Evrópuþinginu, sem talaði við bæði mig og Hilmar í síma og sendi bréf. Nú í janúar kom Ögmundur svo á fundi með þremur talsmönnum Kúrda og bauð mér m.a.s. heim til sín til að hitta þau. Sá fundur hefur nú skilað þeim árangri að tölvan hans Hauks er komin til Evrópu og við reiknum með að hún komi til Íslands fljótlega.“

Hún þakkar Ögmundi innilega fyrir.

Eva er ekki nema hóflega bjartsýn á að úr tölvunni takist að endurheimta gögn. „Kannski er þar eitthvað að finna sem varpar frekara ljósi á það sem Haukur var að hugsa og gera í Sýrlandi og þetta ár sem hann var að undirbúa för sína þangað.“

 Hún lýsir því að henni hafi aldrei orðið minna úr verki en árið 2018. „Mánuðum saman gat ég ekki einbeitt mér að neinu nema Hauki og Kúrdistan. Ég finn enn ekki fyrir sérstökum áhuga á öðrum hlutum þótt ég haldi nokkurnveginn eðlilegri einbeitingu.“

Eva segir að núna langi hana ekkert annað en að skoða þessa tölvu. Ef til vill finni hún dagbókarfærslur, skrýtnar hugrenningar eða kvæði. „Ég reikna ekki með fleiri orðaskiptum eða fleiri faðmlögum en mögulega eigum við eftir að sjá eitthvað um það hvernig skoðanir hans og hugmyndir breyttust síðasta árið. Kannski, en bara kannski, leynist þar einhver fjársjóður. Kannski ein lítil frásögn. Kannski eitt ljóð enn,“ skrifar hún.