Björgunarfólk berst enn upp á líf og dauða við ógnarstóra skógarelda sem breiðast hratt út í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum. Tugþúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín og að minnsta kosti ellefu hafa látist vegna eldanna.

Heill bær orðið eldinum að bráð

Þúsundir bygginga hafa orðið eldinum að bráð og hefur neyðarástandi verið lýst yfir.

Sem fyrr segir hafa að minnsta kosti ellefu látist, en níu hinna látnu hafa fundist í eða eða í kringum bæinn Paradise, í norðurhluta Kaliforníu. Eldurinn sem þar hefur gengið yfir hefur nánast gleypt bæinn í sig í heild sinni og hafa nær 7000 heimili og atvinnuhúsnæði brunnið til kaldra kola.

Eldurinn breiddist svo hratt út í bænum að margir urðu að skilja bílana eftir og flýja logana á tveimur jafnfljótum. „Eldurinn var svo nálægt að ég gat fundið fyrir honum í bílnum í gegnum lokaða glugga,“ er haft eftir Ritu Miller á vef The Guardian, en hún flúði bæinn með móður sinni

„Þar til þau voru öll svo gott sem horfin“ 

Patrick Knuthson, er fjórða kynslóð íbúa í bænum. „Eldurinn breiddist úr einu húsi í næsta og þarnæsta þar til þau voru öll svo gott sem horfin. Ég tapaði húsinu mínu árið 2008 og það er eitthvað sem þú getur ekki útskýrt fyrr en þú hefur upplifað það.“ 

Tugþúsundir þurft að leggja á flótta vegna eldanna, sem geisa víða. Sumir hafa þurft að leggja af stað gangandi, en aðrir á bílum. Á samfélagsmiðlum hefur fólk birt myndir af vegaköflum þar sem eldur er til beggja hliða og þykkur reykur byrgir sýn.

Níuhundruð slökkviliðsmenn að störfum

Tölur látinna hafa verið á nokkuð á reiki en nú hafa ellefu dauðsföll verið vegna eldsins. Fleiri er þó leitað og telja yfirvöld að tölur látinna muni hækka með tímanum. Níuhundruð slökkviliðsmenn vinna nú að því að slökkva eldana víðs vegar um ríkið. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem nú er staddur í Frakklandi, tjáði sig um eldana á Twitter síðu sinni. Kennir hann skógræktaryfirvöldum um vanrækslu, og hótar að skera niður opinbert fjármagn til yfirvalda sé ekki bætt úr skák.

Stjörnur flýja eldana

Í Los Angeles sýslu ógna skógareldur 75.000 heimilum. 200 þúsund manns hefur verið gert að rýma svæðið, þar á meðal fjöldi kvikmynda- og sjónvarpsstjarna sem búa í utan við Los Angeles borg. Meðal fræga fólksins sem hefur þurft að rýma heimili sitt er Kim Kardashian og Kanye West, Cher og Lady Gaga.  

Kim Kardashian birti myndir af eldinum á Instagram síðu sinni í gær og þakkaði slökkviliðsmönnum fyrir störf sín. Hún, maður hennar og fjölskylda höfðu klukkustund til að pakka saman föggum sínum og flýja.