Ekkert hefur enn spurst til Jóns Þrastar Jónssonar. Hann hvarf í Dublin á Írlandi fyrir tíu dögum síðan. Fjölskylda Jóns biðlaði í gær til þeirra landsmanna, sem eiga vini og kunningja í Dublin, að koma áleiðis veggspjaldi með upplýsingum um Jón Þröst, sem hengja mætti á ljósastaura. Fjölskyldan fundaði með lögreglunni í Dublin í gær. 

Sjá einnig: Ekkert bendi til þess að Jón Þröstur sé utan Dublin og Eiga fund með lögreglu í dag

Systir Jóns, Þórunn, hefur tjáð sig um málið á Facebook og í nótt birti hún færslu þar sem hún áréttar nokkra hluti varðandi ferð Jóns til Dublin og um hann sjálfan. Hún segist hafa fengið fjölmörg skilaboð frá fólki þar sem hún er beðin um að gera það svo fólk fari ekki að búa til sínar eigin sögur um hann og ferð hans.

Hún segir í færslu sinni að eldri bróðir sinn, Jón, hafi nú verið týndur í tíu daga og að hún spyrji sjálfa sig hvernig manneskja geti einfaldlega horfið með þessum hættu í tveggja milljóna manna borg?

Hún segir að Jón hafi farið til Dyflinnar í tíu daga ferð með kærustunni sinni, Jönu, til að taka þátt í pókerhátíð og til að skoða kastala. Eftir aðeins einn og hálfan dag hvarf hann.

„Ég get velt því fyrir mér allan daginn og alla nóttina hvað gerðist en það mun ekki róa huga minn,“ segir Þórunn í færslu sinni.

Því næst ávarpar Þórunn tilgang ferðar Jóns.

„Miðaldra maður sem er með tattú og fór til Dublin að spila póker og týnist hlýtur að vera eitthvað skuggalegur, ekki satt? Jæja, leyfið mér að segja ykkur nokkra hluti um stóra bróðir minn Jón.“

Hún segir að Jón Þröstur sé elstur fimm systkina og sé skírður í höfuðið á báðum öfum sínum. Hún segir hann týpískan sporðdreka. Hann sé töfrandi, viljasterkur og hugrakkur.

„Hann er aðeins fimmtán mánuðum eldri en ég og mér hefur verið sagt að þegar ég fæddist hafi hann orðið mjög öfundsjúkur að ég hafi stolið athygli móður okkar. Hann klifraði stundum í vögguna mína og þóttist vera smábarnið,“ segir Þórunn.

Hún segir að öfundsýkin hafi ekki varað lengi og eftir því sem þau urðu eldri hafi samband þeirra orðið sterkar. Hann sé til dæmis manneskjan sem hún myndi hringja í yrði hún handtekin.

„Jón hefur alltaf verið sjálfstæður og fór að heiman snemma. Hann er góð og blíð sál, gríðarlega klár, hlédrægur en líka opinn. Ekki pólitískur. Ekki trúaður. Fjölskyldumaður og faðir/stjúpfaðir fjögurra sterkra barna sem eru 11, 11, 16 og 17 ára,“ segir Þórunn.

„Ég þarf að finna bróðir minn!“

Hún segir einnig frá því að Jón hafi oft hjálpað henni með ýmsa hluti, bæði þegar hún útskrifaðist og að þegar þau eignuðust börn með sex mánaða millibili hafi þau hjálpast að. Heimili Jóns hafi verið henni annað heimili.

„Jón er áreiðanlegasta og traustasta manneskja sem ég þekki og ef þið spyrjið aðra er ég viss um að þau segi það sama. Þau myndu líka segja ykkur hvað þetta er allt skrítið. Það hljómar ekki eins og hann að bara standa upp og fara. Og ég trúi því ekki að hann hafi gert það. En við getum ekki sagt ykkur hvað gerðist því við vitum það ekki,“ segir Þórunn og bætir við:

„Hjarta mitt er brotið. Oft síðustu tíu dagana hefur mér liðið eins og ég ætti að hringja í hann því ég er að ganga í gegnum erfiða hluti og þarf að tala við hann. Ef eftir aðeins tvær sekúndur sé ég mistökin. Ég get ekki hringt í Jón,“ segir Þórunn.

Hún segir að hún skilji ekki hvernig þetta megi vera að gerast og að henni líði eins og hún sé ekki alveg tengd og spyr að lokum:

„Hvernig getur þetta verið að gerast? Hvar er bróðir minn? Ég þarf að finna bróðir minn!“

Færslu Þórunnar er hægt að sjá hér að neðan. Fjölskyldan hefur hafið söfnun til að fjármagna leitina að Jóni. Hægt er að kynna sér hana nánar hér.

Sást síðast í Whitehall

Fjölskylda Jóns hélt út til Dublin í síðustu viku og hefur undanfarna daga unnið að því að hengja upp veggspjöld víða í borginni. Jón Þröstur sást síðast um klukkan 11 á laugar­dags­morgun í Whitehall í Dyflinni. Ekkert hefur spurst til hans síðan. Hann er 41 árs og um 190 sentí­metrar á hæð og eru þeir sem telja sig hafa upp­ýsingar um Jón beðnir um að hafa sam­band við lög­regluna á Ír­landi, en Face­book-síðu hennar má sjá hér fyrir neðan.