Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels, segir verkfall Eflingar og VR mikið fjárhagslegt tjón og það sé sjálfsagt að stjórnendur taki til hendinni þegar þarf. Hann fullyrðir að karlar hafi kosið um verkfallið sem Efling þvertekur fyrir.

Ríf­lega 2.000 félagar í Efl­ingu og VR­ ­taka þátt í verk­fall­i dagsins en meiri­hluti þeirra starfar á 40 hót­elum á félags­svæði stétt­ar­fé­lag­anna. Stjórnendur hótela í Reykjavík hafa séð um þrif í dag til að halda uppi þjónustu. Kristófer Oliversson segir það úrelta hugmyndafræði að stjórnendur geti ekki unnið almenn störf.

„Það fer í taugarnar á mér hvernig þetta blessaða fólk talar til okkar. Eins og fólk sem stjórni hótelum geti ekki unnið, að þykja það niðrandi að þrífa klósett eða ganga í þau störf sem allir hafa unnið í gegnum tíðina,“ segir Kristófer í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir gömlu hugmyndafræðina ekki passa við íslenska stjórnendur. „Við erum komin af sjómönnum og bændum og tökum til hendinni þegar þarf.“

Hann segir að hann hafi áhyggjur af fjárhagslegu tjóni aðgerðanna.

„Þetta setur allt á hliðina. Ég ætla ekki að gera lítið úr áhrifunum. Þetta er mikið fjárhagslegt tjón.“

Skylda gagnvart gestunum fyrst og fremst

Kristófer segir skyldu sína vera gagnvart gestunum fyrst og fremst.

„Það eru fleiri þúsund gestir hjá okkur sem við þurfum að reyna að afstýra vandræðunum hjá.“

Hann segir að hann hafi áhyggjur af ímynd Íslands sem friðsamari þjóð og segir það ekki skemmtilegt að sjá ferðamenn taka myndir af verkfallsaðgerðum til birtingar á samfélagsmiðlum.

„Þetta er talsverð fjárfesting fyrir fólk að fara til Íslands. Það er leiðinlegt að skemma fyrir þeim ferðina. Okkar ímynd er friðsöm þjóð. Hér ertu öruggur, hér eru ekki átök. Hrópandi hópur skemmir þessa ímynd.“

Segir aðallega karla hafa kosið um verkfall

Stjórn VR samþykkti á fundi sínum þann 25. febrúar 2019, að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall hjá hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Efling gerði slíkt hið sama á fundi sínum 28. febrúar. Meirihluti ræstingarfólks og þerna innan Eflingar eru konur og segir Kristófer karla hafa kosið um þeirra verkfall.

„Það voru 800 sem máttu greiða atkvæði, aðallega karlar sem kusu þetta fólk í verkfall,“ segir Kristófer.

Fréttablaðið hafði samband við Eflingu sem þvertekur fyrir fullyrðingu Kristófers.

„Það er út í hött,“ segir Sara Öldudóttir, sérfræðingur hjá Eflingu. „Við vorum að kjósa meðal annars í Gamla Bíói. Þar voru fyrst og fremst samankomnar konur sem voru að kjósa í gríð og erg. Þetta er hindurvitni hjá honum. Ég skil ekki hvað vakir fyrir honum. Þessar aðgerðir allar hafa verið með mjög góða þátttöku og samvinnu við konur.“

Verkfallsaðgerðum Eflingar og VR lýkur á miðnætti og hefjast á ný þann 28. mars og munu þá standa yfir í tvo sólarhringa.