Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í færslu á Facebook-síðu sinni að beint fjárhagslegt tjón þeirra fyrirtækja sem eru skotmörk verkfalla Eflingar og VR á morgun geti numið rúmlega 250 milljónum króna á dag.

Hún segir, að miðað við stöðuna eins og hún er núna, megi stefni í að verkfallshrina Eflingar og VR hefjist samkvæmt áætlun á miðnætti. 

„Það er vitað mál að verkföll valda ekki bara viðkomandi fyrirtækjum skaða, heldur allri ferðaþjónustunni og þar með samfélaginu í heild,“ segir Bjarnheiður í færslu sinni.

Hún segir að ef gera megi ráð fyrir að verkföllin standi í 18 daga megi ætla að tjónið geti í heild numið 4,5 milljörðum. Sú tala taki aðeins til þeirra fyrirtækja sem verði beint fyrir verkföllum. Tjón samfélagsins myndi nema alls um 600 milljónum króna.

„Til viðbótar eru svo öll óbein og afleidd áhrif á önnur fyrirtæki og atvinnulífið í heild, sem ætla má að geti verið allt að tvöföld á við beinu áhrifin,“ segir Bjarnheiður.

Hún segir að verkföll VR og Eflingar beinist eingöngu gegn ferðaþjónustufyrirtækjum og að stærsti fórnarlömbin verði „erlendir gestir okkar“.

Hún segir að almenningur á Íslandi muni ekki verða mikið var við verkföllin, en tekur þó fram að það dragi ekki úr alvarleika málsins. Hún segir að hér sé gerð „atlaga að stærstu útflutningsgrein landsins. Afleiðingarnar munu á endanum bitna á þjóðarbúinu og þar með okkur öllum,“ segir Bjarnheiður að lokum. 

Færsluna má sjá hér að neðan.