Jens Bjarnason, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, segir að ekki hafi verið hægt að sjá fyrir aðstæðurnar sem sköpuðust á Keflavíkurflugvelli um helgina.
Hátt í þúsund farþegar sátu fastir í flugvélum félagsins vegna óveðurs og mikillar hálku.
Jens segir þetta eitt af þessum tilvikum þar sem veður og aðstæður hafi verið á allt aðra lund en spár gerðu ráð fyrir.
„Versta veðrið átti að ganga yfir klukkan níu um morguninn en detta svo niður um hádegi. Ef það hefði gengið eftir hefðum við komið vélunum til og frá Keflavík án vandræða. Það er svo ekki fyrr en vélarnar lenda í Keflavík sem í ljós kemur að aðstæður voru með þessum hætti. Mikil hálka og hávaðarok,“ segir Jens.
Hann segist vel geta skilið að farþegar, sem sátu fastir í vélum félagins eftir lendingu í upp undir 10 klukkustundir, séu ósáttir. Þetta sé engin óskastaða. Hvorki fyrir félagið né viðskiptavinina.
„Við höfum reynt eftir fremsta megni að greiða úr öllum flækjum og koma fólki á áfangastað. Það er alveg ljóst að af þessu skapast talsvert tjón fyrir félagið. Tjón sem hleypur líklega á tugum milljóna. Fyrir utan óþægindi okkar viðskiptavina“

Aðspurður hvort Icelandair muni reyna að koma í veg fyrir að atvik sem þessi endurtaki sig segir Jens:
„Við reynum alltaf að draga lærdóm af atvikum sem þessum. Við rýndum til að mynda mjög gaumgæfilega þær aðstæður sem sköpuðust í Keflavík í desember. Við munum gera slíkt hið sama núna. En svona fljótt á litið þá erum við þess fullviss að sú ákvörðun að senda vélarnar af stað frá Bandaríkjunum var fullkomlega réttlætanleg. Miðað við þau gögn sem við höfðum í höndunum á þeim tíma. En þetta er víst hluti af því að reka flugfélag á Íslandi. Að glíma við þessi vetrarveður sem við búum við,“ segir Jens Bjarnason
Nánar verður rætt við Jens Bjarnason í Fréttavaktinni á Hringbraut klukkan 18:30.