Flugslys varð skammt frá flugvellinum við Múlakot í Fljótshlíð á Suðurlandi í kvöld. Fimm farþegar voru í vélinni og eru þeir allir alvarlega slasaðir. Báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á vettvang og eru þær lentar við Borgarspítalann í Fossvogi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ók slökkvi- og sjúkrabíll á ljósum í gegnum Hellu á miklum hraða.

Samkvæmt tilkynningu Lögreglunnar á Suðurlandi barst tilkynning um slysið stuttu eftir hálf níu í kvöld. Eldur var þá í vélinni, og var fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga sent á vettvang. 4 slökkviliðsmenn frá Vík í Mýrdal og 21 slökkviliðsmaður frá Hvolsvelli voru sendir á vettvang, auk annarra viðbragðsaðila. Allt í allt voru um 50 viðbragðsaðilar sendir á vettvang þegar mest var.

Um var að ræða tveggja hreyfla, fimm til sex manna vél, og voru fimm farþegar í henni sem eru allir alvarlega slasaðir.

Fyrstu viðbrögðum er lokið og tekur nú við rannsókn málsins. Viðbragðsteymi Rauðakrossins hefur jafnframt verið sent á vettvang til að veita vitnum áfallahjálp eftir atvikum..

Slysið varð rétt norðan við flugvöllinn í Múlakoti í Fljótshlíð.
Skjáskot/ Map.is

Rannsókn málsins er nú í höndum lögreglunnar á Suðurlandi, ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa og rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Flugvöllurinn er skammt frá sumarbústaðabyggð sem er einkarvinsæl meðal flugmanna.

Fréttin er í vinnslu og verður uppfærð reglulega.