„Ég get ekki sagt það hafi verið mikill straumur í dag en það eru mjög margir gestir hér og voru komnir fyrir helgina. Það hefur ekkert mikið breyst,“ segir Ást­hildur Sturlu­dóttir, bæjar­stjóri á Akur­eyri í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Tjald­svæðið er fullt og því er bara skipt upp í sótt­varnar­hólf. Mér sýnist fólk vera að taka þessum til­mælum að vera heima bara mjög vel,“ segir hún enn fremur.

Lög­reglan á Norður­landi mun sinna eftir­liti um helgina og tryggja að öllum sótt­varna- og sam­komu­banns­reglum verður fylgt um helgina, bæði í bænum og á tjald­stæðinu.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar.

Smitið ekki greint á Akureyri

Greint var frá því í Frétta­blaðinu í dag að smit hafi komið upp á Akur­eyri og er fjögurra manna er­­lend fjöl­­skylda er nú í ein­angrun. Ást­hildur segir að smitið hafi ekki greinst á Akur­eyri.

„Þetta eru ferða­menn sem voru ekki á Akur­eyri þegar þau greinast og voru bara fluttir hingað í sótt­varnar­hús. Þetta var fólk sem hafði ekki verið á Akur­eyri þangað til það kom hingað í sótt­varan­húsið,“ segir hún.

Ást­hildur segir hins vegar Akur­eyringa vera afar ró­lega yfir stöðunni. „Fólk er bara yfir­vegað og ró­legt hér. Virðir allar reglur sýnist mér. Hef ekkert heyrt neitt annað.