Hópur flóttamanna og stuðningsfólk þeirra hafa fengið leyfi hjá Rekjavíkurborg til þess að tjalda á Austurvelli. Mótmæli fyrir framan Alþingi munu því halda áfram næstu daga. Kröfur hópsins eru nokkrar, en helst snúa þær að því að flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi fái áheyrn stjórnvalda til þess að bera fram kröfur sínar. 

Stór hópur svaf undir berum himni á Austurvelli í nótt og voru búin teppum, svefnpokum og hitalömpum. Þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði fyrir stuttu var hópurinn að setja upp tjald á Austurvelli. 

Sjá einnig: Fjöldi mótmælenda gisti á Austurvelli

Elínborg Harpa Önundardóttir aðgerðasinni hjá No Borders Iceland segir í samtali við Fréttablaðið að mótmælendur ætli sér að halda til á Austurvelli þar til stjórnvöld eru tilbúin að opna samtal við þau um þær kröfur sem þau hafa lagt fram. Kröfurnar eru fimm og snúa að því að umsækjendur um alþjóðlega vernd að vinna, að brottvísunum, verði hætt, jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, að Ásbrú verði lokað og jafna efnismeðferð fyrir alla. 

Sjá einnig: Lög­regla beitti pipar­úða gegn mót­mælendum

Sex mótmælendur áttu fund með fulltrúa forsætisráðherra í forsætisráðuneytinu í gær. Þar greindu mótmælendur frá því að ef yfirvöld væru til í að koma að borðinu og ræða við þau um kröfur þeirra myndu þau láta af mótmælum sínum. Elínborg segir að yfirvöld hafi ekki viljað vera við því. Mótmælendur eru því enn á Austurvelli. Hún segir að þau hyggist gista þar aftur í nótt. Hún segir að það vant ávallt teppi, kodda, mat og hvetur fólk til að koma til þeirra til að sýna flóttafólkinu samstöðu.

„Það eru allir velkomnir að koma og sýna hópnum samstöðu. Það vantar ávallt, kodda, teppi og við þiggjum mat og heita drykki með þökkum,“ segir Elínborg að lokum.

Sjá einnig: Lögreglan segist ekki vera „and­stæðingur mót­mælenda“