Þing­­flokks­fundir Sjálf­­stæðis­­flokks og Vinstri grænna hófust í Al­þingis­húsinu nú klukkan 13, þar sem búast má við að staða Sig­ríðar Á. Ander­­sen sem dóms­­mála­ráð­herra verði rædd eftir niður­­­stöðu Mann­réttinda­­dóm­­stóls Evrópu frá því í gær, þess efnis að ríkið hafi gerst brotlegt við skipan dómara við Landsrétt. Um er að ræða tvo að­­skilda fundi en ríkis­­stjórnin mun koma saman í stjórnar­ráðinu að fundunum loknum, eða klukkan 16 í dag. 

Sjá einnig: Framtíð Sigríðar gæti ráðist í dag

Hvorki þing­­menn né ráð­herrar flokkanna tveggja vildu tjá sig við fjöl­­miðla þegar eftir því var leitað. Katrín Jakobs­dóttir for­­sætis­ráð­herra mætti rétt fyrir klukkan 13 með upp­­­lýsinga­full­­trúa ríkis­­stjórnarinnar, Láru Björg Björns­dóttur, en sagðist ekki ætla að ræða við fjöl­­miðla fyrr en eftir sam­­tal við þing­­flokk sinn. Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, þing­­maður VG, sagðist að sama skapi ekki ætla að tjá sig fyrr en eftir að for­­sætis­ráð­herra hefur gert það. 

Þá hefur Bjarni Bene­dikts­­son fjár­­mála­ráð­herra heldur ekki viljað tjá sig um niður­­­stöðu Mann­réttinda­­dóm­­stóls Evrópu, en þegar hann mætti í þing­húsið í dag sagðist hann vera orðinn of seinn á fund og geti því ekki rætt málið að svo stöddu.