Aldrei hafa fleiri ungmenni notað veipur og rafrettur. Ný könnun Rannsókna og greininga sýnir fram á að yfir 40 prósent nemenda í 10. bekk grunnskóla hafa prófað rafrettu einu sinni eða oftar. Tíu prósent efstu bekkinga nota rafrettur daglega og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Foreldrar grunnskólabarna hafa áhyggjur af notkuninni og kalla á aðgerðir stjórnvalda.

Notkun rafretta hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Notkun þeirra sem hjálpartækja við að hætta að reykja er umdeild og sömuleiðis eru takmarkaðar upplýsingar til um áhrif þeirra á heilsu fólks, til lengri og skemmri tíma. Þó hafa heilbrigðisyfirvöld víða um heim lagt blessun sína yfir notkun rafretta til að hjálpa reykingafólki að hætta enda eru þær margfalt minna heilsuspillandi en hefðbundnar sígarettur.

Notkun ungs fólks á rafrettum hefur færst verulega í aukana undanfarið en það þykir áhyggjuefni þar sem líkur eru á að rafrettunotkun barna leiði til reykinga. Læknafélag Íslands sendi frá sér ályktun á dögunum og taldi þeim árangri, sem Íslendingar hafa náð við að minnka reykingar barna, stefnt í hættu með núverandi fyrirkomulagi á sölu veipa og rafretta.

Rafrettur þykja töff meðal ungmenna

Þetta er gríðarlega mikið rætt meðal foreldra. Foreldrar hafa áhyggjur af því að börn þeirra séu að nota rafrettur og ánetjist þeim,“ segir Sigríður Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK, samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík.

„Í nánast hvaða skóla sem ég heimsæki er rætt um rafrettunotkun barna og ungmenna og hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta. Ég hef rætt við foreldra barna allt niður í 7. bekk og þar erum við að ræða um 12 ára börn sem hafa verið að nota rafrettur.“

Foreldrar telja markaðssetningu veipa og rafretta höfða meira til barna en fullorðinna. Umbúðir eru litríkar og skrautlegar og bragðtegundir margar hverjar sælgætistengdar.

„Veipur eða rafrettur er fyrirbæri sem er fundið upp fyrir fólk sem vill hætta að reykja. Fullorðið fólk á alveg að geta notað veipur og ég styð það. En tilfinning foreldra, miðað við niðurstöður rannsókna, er sú að það er miklu meiri notkun á meðal barna en við gerum okkur grein fyrir. Svo má ekki merkja litlar sjoppur með merkjum frá tóbaksframleiðendum, en það má merkja þær með merkjum frá framleiðendum rafretta.“

Sigríður Björk segir áhyggjur foreldra felast meðal annars í því að börn læri að taka reykinn ofan í sig, þrátt fyrir að veipur séu aðeins gufa en ekki reykur sé notkunin mögulega byrjunin á hefðbundnum reykingum. Þá hafi rannsóknir sýnt fram á að ýmis eiturefni sé að finna í mismunandi bragðtegundum sem eru skaðleg börnum og ungmennum.

„Veipur hafa fengið ákveðinn „kúl“-stimpil á meðal ungmenna. Við vitum auðvitað ekki að þetta sé skaðlaust. Það eru ekki til neinar langtímarannsóknir. En okkur finnst að börnin eigi að fá að njóta vafans, fyrir utan það að börn eiga ekki að nota rafrettur og veipur. Stjórnvöld verða að bregðast við. Frumvarpið um hertari reglur tekur gildi 1. mars 2019 en við viljum ganga lengra og tökum undir með ályktun Læknafélagsins um að salan fari fram í apótekum eða eitthvað slíkt. Þó að tekið sé strangt á aldurstakmarki í einhverjum veipverslunum þá er það bara ekki alls staðar og það sýnir sig. Við vitum einnig af tilvikum þar sem börn eru að setja kannabisvökva í veipurnar,“ segir Sigríður Björk.

„Við viljum auðvitað ekki koma í veg fyrir veipur og rafrettur fyrir fullorðið fólk, en það þarf að skilja þarna á milli, hjálpartækja fyrir fullorðna á móti því að þetta þyki töff meðal barna.“

Strangar reglur um skilríki

Stefán Arnórsson er einn eigenda fimm rafrettuverslana Grand Vape Shop. Hann segir eftirlit í sínum verslunum vera mjög strangt. „Frá því að við opnuðum okkar fyrstu verslun höfum við verið mjög ströng á reglum um 18 ára aldurstakmark. Allar búðirnar okkar eru merktar slíkum takmörkunum í gluggum okkar verslana og þeir starfsmenn sem ekki framfylgja þessum reglum fá áminningu,“ segir Stefán. „Við erum að biðja fólk um skilríki allt upp í þrítugt.“

Stefán segir að eigendum rafrettuverslana sé málið mjög hugleikið og ítrekar að rafrettur séu ekki ætlaðar börnum og ungmennum. „Við teljum engu að síður rafrettur og veipur vera mikilvægt tæki fyrir fólk til þess að venja sig af sígarettureykingum en auðvitað er það ekki fyrir neinn undir 18 ára aldri. Við höfum rætt þetta í ljósi þeirrar gagnrýni sem við höfum fengið á okkur og höfum ákveðið að senda frá okkur yfirlýsingu vegna málsins,“ segir Stefán.

„Við viljum að sjálfsögðu ekki höfða til barna né ungmenna. En við getum auðvitað ekki stoppað það að fólk með aldur til kaupi fyrir þá sem hafa ekki aldur til. Það þyrfti kannski að auka forvarnir á þessu sviði,“ segir Stefán.


Meira um efnið í Tilverunni, nýjum fréttahluta í fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins þar sem heilsu og lífsstíl verður gert hátt undir höfði.