Gangi stækkun Eggjabús Stjörnueggs á Vallá á Kjalarnesi eftir mun fyrirtækið dreifa um 3.500 tonnum af hænsnaskít á ári á land Geldingaár í Hvalfjarðarsveit. Það gera um 10 tonn á dag.

Eggjabúið stefnir að því að fjölga fuglum úr 50 þúsund í 95 þúsund fugla auk þess að endurnýja búnað. Fyrirtækið hyggst losa sig við hænsnaskít úr búinu með því að dreifa honum sem áburði.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tók málið fyrir í vikunni en umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd bendir á að í gildandi aðalskipulagi sveitarinnar eru þó nokkur merkt vatnsból og brunnsvæði í landi Geldingaár. Vill hún fá óháðan aðila til að meta það hvort hætta sé á að vatnsbólin í nágrenni við dreifingarsvæðið geti mengast. Þá tekur nefndin það fram að umfjöllun um lyktarmengun fjalli ekki aðeins um aðstæður á Vallá heldur verði einnig fjallað um slíka mengun við Geldingaá.

„Nefndin veltir einnig fyrir sér hvort að hænsnaskíturinn sem dreift er í landi Geldingaár laði til sín fugla sem dreifi honum svo víðar um svæðið. Gera þarf grein fyrir þessu og öðrum mögulegum smitleiðum í frummatsskýrslu. 3.500 tonn af hænsnaskít á ári eru tæp 10 tonn hvern dag ársins“, segir í fundargerð sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

Þá spyr nefndin hvernig verði staðið að flutningum á öllum þessum skít og mögulegum áhrifum á umferð og umferðaröryggi í Hvalfjarðarsveit.