Í dag verður sennilega met slegið í fjölda bólusetninga; 10 þúsund manns hafa verið boðaðir í bólusetningu og fá bóluefni Pfizer. Alma D. Möller landlæknir er meðal þeirra sem fengu bóluefni í morgun.

Þessa viku verða tæplega 40 þúsund einstaklingar bólusettir gegn COVID-19 kórónaveirusjúkdómnum; 14.000 manns fá Pfizer bóluefnið, 6.500 manns fá Janssen bóluefnið og 15.000 fá bóluefni AstraZeneca og 4.000 fá Moderna bóluefnið.

„Þetta er stærsti dagurinn til þessa. Ég vona að það verði met slegið í dag,“ segir Ragnheiður Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, í samtali við Fréttablaðið. Hún er sjálf stödd á Suðurlandsbrautinni að blanda bóluefni og hefur verið frá klukkan sex í morgun.

„Við bara blöndum og blöndum eins og enginn sé morgundagurinn. Pfizer er tímafrekt bóluefni og við fáum reglulega að heyra úr höllinni þegar þau verða tæp á efni, þá setjum við allt í fluggír. Það mega ekki líða meira en sex tímar milli blöndunar og sprautunar,“ útskýrir Ragnheiður.

Bólusetningin í dag er hundrað manna aðgerð: 30-40 hjúkrunarfræðingar blanda bóluefnið og 30 hjúkrunarfræðingar sprauta bóluefninu. Að verkefninu koma einnig sjúkraflutningamenn, lögregla og annað starfsfólk sem sér um að skanna kóðann þegar fólk mætir í bólusetningu.

Úr röðinni í morgun.
Mynd: Aðsend