Tíu ferða­menn sem komu með flugi frá Spáni í gær eru í haldi á Kefla­víkur­flug­velli vegna þess að þeir upp­fylla ekki skil­yrði um að koma til landsins. Vísir greindi fyrst frá þessu.

Sam­kvæmt reglu­gerð dóms­mála­ráð­herra sem gildir til 31. maí er lagt bann við ó­nauð­syn­legum ferðum til Ís­lands frá til­greindum hættu­svæðum en hluti af Spáni bættist á lista yfir slík hættu­svæði á föstu­dag.

„Við erum með tíu manns í okkar vörslu sem mega ekki koma til landsins á grund­velli reglu­gerð dóms­mála­ráð­herra. Þessir aðilar eru ekki bólu­settir og ferð þeirra telst ó­nauð­syn­leg,“ segir Sigur­geir Ómar Sig­munds­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Kefla­víkur­flug­velli í sam­tali við frétta­stofu Vísis.

Í reglu­gerð dóms­mála­ráð­herra segir að út­lendingum, sem koma frá eða dvalið hafa í meira en sólar­hring á síðast­liðnum 14 dögum á svæði þar sem 14 daga ný­gengi smita er yfir 700 á hverja 100.000 íbúa eða full­nægjandi upp­lýsingar liggja ekki fyrir um svæðið er ó­heimilt að koma til landsins. Bannið á við um alla út­lendinga jafnt ríkis­borgara EES og EFTA landa.

Þó eru undan­þágur á reglu­gerðinni en hún tekur ekki til þeirra sem hafa fasta bú­setu hér á landi, né til þeirra sem eru bólu­settir.

Í sam­tali við frétta­stofu RÚV segir Sigur­geir að um sé að ræða ferða­menn sem hafi hvorki bú­setu hér á landi né fjöl­skyldu­tengsl. Hann segir að senni­lega hafi fólkið ætlað að láta reyna á að komast inn í landið eða þá að þau hafi ekki vitað af reglu­gerðinni.

„Það er svo­sem trú­legt að það hafi ekki vitað það. En þegar fólk for­skráir sig á co­vid.is áður en það kemur til landsins þá kemur þetta upp. Þau ættu ekki að vera grun­laus en þetta er tæpt í tíma, Spánn bættist á listann á föstu­daginn og það þurfti að upp­færa tölvu­kerfið þannig að það getur verið að þetta hafi farið fram hjá fólki,“ segir Sigur­geir.

Hann segir fólkið dvelja í að­stöðu sem lög­reglan hafi sett upp á Kefla­víkur­flug­velli og stoð­deild ríkis­lög­reglu­stjóra sé að vinna í því að senda fólkið til baka. Hann segir fólkið ekki vera hresst með gang mála.

„Stoð­deild ríkis­lög­reglu­stjóra annast flutninginn og þeir verða lík­lega sendir til baka með næstu vél,“ segir Sigur­geir.