Stórir skjálftar hafa orðið reglulega í Bárðarbungu frá því að gosinu í Holuhrauni lauk. Þeir voru tíðari stuttu eftir gosið en hefur síðan fækkað, að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.

„Við metum það sem svo að þetta sé kerfið ennþá að jafna sig. Það er ennþá að aukast þrýstingur undir öskjunni eftir gosið í Holuhrauni,“ segir Salóme. Ekki er litið á þetta sem vísbendingu um eitthvað meira. Tíu skjálftar hafa mælst syfir 4,5 á stærð frá lokum eldgossins í Holuhrauni.

Tveir skjálftar yfir þrjá mældust á þriðjudagskvöld. Annar var 3,9 og og hinn var 4,5.

Salóme segir að aðeins hafi mælst litlir skjálftar í kjölfarið. Sérfræðingar hjá Veðurstofunni séu ekki mjög stressaðir yfir stöðunni.

Stuttu eftir hádegi á miðvikudag mældist jarðskjálfti 3,1 að stærð á Mýrdalsjökli. Salóme segir skjálfta af þeirri stærð algenga á sumrin.

„Það hefur að gera bæði með bræðslu og þessa sigkatla sem geta fyllst og stundum hlaupið úr,“ segir Salóme. Engin merki séu um jökulhlaup en að alltaf sé fylgst vel með.